logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla 5.janúar 2024

05.01.2024 13:19

Margir fara inn í nýtt ár með fyrirheit um að gera betur í einu og öðru og það gerum við líka í Varmárskóla. Við erum ánægð með margt sem er í gangi hjá okkur en vitum jafnframt að það er alltaf hægt að bæta sig.  Starfsmenn skóla vinna auðvitað fyrst og fremst með nám og þroska barna í sínum daglegu verkefnum en mörg hliðarverkefni sem tengjast framförum í skólastarfi eru einnig á þeirra könnu. Þessi verkefni eru oft hálf ósýnileg öðrum en þeim sem starfa í skólum. Eitt slíkt er innra mat á skólastarfinu og það er eitt af fyrirferðarmeiri verkefnunum hjá okkur á vorönninni. Þá leggjum við mat á hvernig hefur gengið að vinna að markmiðum síðasta árs og gerum tillögur til breytinga ef þurfa þykir, um leið og við leggjum mat á núverandi stöðu í nokkrum þáttum. Matsverkefni þessarar vorannar eru sjö talsins og í tengslum við þau leggjum við línur og setjum okkur svo starfsmarkmið fyrir komandi ár.  Þannig á innra mat skóla að stuðla að stöðugum framförum í skólastarfinu.  Skýrsla um innra mat síðasta árs er á heimasíðu skólans og þar má líka skoða starfsmarkmið þess árs. http://www.varmarskoli.is/library/Skrar-Varmarskola/pdf/vefur-aaetlanir/2022_2023_skyrsla_innra_mat_varmarskoli.pdf

Nemendur okkar eru líka að leggja mat á hvernig þeim hefur gengið að vinna að markmiðum sínum og setja ný markmið fyrir komandi mánuði. Þetta á bæði við um bekkjarsáttmálana sem eru sameign nemenda í námshópum og einstaklingsleg markmið hvers og eins. Við erum sannfærð um að það að kenna nemendum að setja sér markmið og finna leiðir til að vinna að þeim verður þeim mikilvæg kunnátta seinna í lífinu. Á meðfylgjandi mynd má sjá dæmi um slíka markmiðsvinnu nemenda.

Við hlökkum til góðs samstarfs á komandi ári og hafið það gott um helgina

Starfsfólkið í Varmárskóla

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira