logo
 • Virðing -
 • Jákvæðni -
 • Framsækni -
 • Umhyggja

Skólinn

Varmárskóli er grunnskóli fyrir nemendur í 1. til 10. bekk. Nemendur eru rúmlega 830 í 40 bekkjardeildum auk 5 bekkjardeilda í útibúi Brúarlands. Varmárskóla er skipt upp í tvær deildir, yngri og eldri deild. Annarsvegar yngri deild sem hýsir 1. – 6. bekk og eldri deild með 7. – 10. bekk. Deildirnar eru í sitthvoru húsinu og þannig gefst tækifæri til að skapa menningu og andrúmsloft sem hæfir ólíku aldursstigi.

Í yngri deild kenna umsjónarkennarar flesta tíma hjá sínum bekk og halda utan um námsskipulag og eru í samskiptum við foreldra. Í eldri deild er lögð áhersla á faggreinakennslu, verk-og valgreinar.

Skrifstofa skólans er opin frá kl. 8.00-16.00 alla virka daga. Netfang skólans er varmarskoli@varmarskoli.is


Varmárskóli er að móta sér stefnu með áherslu á útikennslu, heilsueflingu og sjálfbæra þróun. Skólinn er staðsettur í ómetanlegu umhverfi þar sem leirurnar, Varmáin, fellin og móarnir fléttast við íþróttaparadís Varmársvæðisins.

 

 

Umsókn um skólavist

Skráning í Varmárskóla fer fram í gegnum íbúagátt Mosfellsbæjar. Einnig er sótt um mötuneyti og frístundasel í íbúagáttinni. Ef einhverjar breytingar verða á mötuneyti eða frístundaseli (uppsögn á þjónustu/ breytingar) þá þarf að gera þær fyrir 20. hvers mánaðar. Ef nemandi hættir við Varmárskóla þá þarf foreldri að segja upp mötuneyti og frístund hafi nemandi verið skráður þar.

Ef skrá á nemanda í Varmárskóla þá er góð regla að hafa samband við skólann og heyra í stjórnendum. Þetta á einkum við ef nemandi kemur úr öðrum skóla ýmist að hausti eða á miðjum vetri. Reynt er að auðvelda nemendum skólaskiptin eins vel og hægt er. Mótttökuáætlun nýrra nemenda er til og gott er að kynna sér hana.

Umsókn um leyfi

Umsjónarkennarar geta veitt nemendum sínum leyfi í allt að tvo daga. Ef sækja á um leyfi frá skólavist í styttri (3-5 daga) eða lengri tíma (vika eða lengur) þarf að sækja um það á viðeigandi eyðublöðum. Hafi foreldri/forráðamaður ekki heyrt frá skólanum um leyfisveitinguna er svo litið á að leyfið hafi verið samþykkt.


Í 15. grein laga um grunnskóla frá 2008 segir:

„Sæki foreldrar skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn í einstökum námsgreinum eða að öllu leyti er skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu telji hann til þess gildar ástæður. Foreldrar skulu þá sjá til þess að nemandinn vinni upp  það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur”.

Skráning í mötuneyti fer fram á Íbúagátt

Metnaðarfullt skólamötuneyti í Mosfellsbæ

Mötuneyti Varmárskóla starfar samkvæmt samræmdri stefnu skólamötuneyta í leik-og grunnskólum Mosfellsbæjar í samræmi við ráðleggingar Lýðheilsustöðvar. Í Mosfellsbæ er lögð áhersla á að í skólamötuneytum bæjarins njóti skólabörn fjölbreyttrar fæðu í hæfilegu magni, að matvælin séu rík af næringarefnum, fersk og að þau séu í háum gæðaflokki. Lögð er áhersla á að farið sé eftir ráðleggingum Lýðheilsustöðvar hvað varðar fæðuval, næringargildi og skammtastærðir.

HÁDEGISMATUR

Nemendum stendur til boða hádegisverður sem saman stendur af kjöt- eða fiskréttum, súpum, mjólkurvörum, brauði, grænmetir og ávöxtum. Matseðillinn er unninn samkvæmt manneldismarkmiðum fyrir Íslendinga og er lögð áhersla á að hafa máltíðir fjölbreyttar. Einnig er hægt að kaupa samlokur, jógúrt og drykki í lausasölu í eldri deildinni.

ÁVAXTASTUND

Hægt er að sækja um ávaxtabita fyrir börn í 1. - 6. bekk í Varmárskóla í gegnum íbúagátt Mosfellsbæjar. Ávaxtabitinn inniheldur ferska ávexti daglega. Forráðamenn barna geta sótt um ávaxtabitann í gegnum Íbúagáttina.

NESTI AÐ HEIMAN

Þau börn úr grunnskólanum sem ekki kaupa hádegismat í skólanum geta komið með nesti að heiman og borðað það í mötuneyti með öðrum nemendum. Þar er aðstaða til að grilla samlokur og hita mat í örbylgjuofni. Áhersla skal lögð á að nestið sé hollt og næringarríkt.

Mötuneyti

Sögulegt yfirlit Varmárskóla
Varmarskoli myndKennsla hófst í Varmárskóla árið 1961. Þá var Lárus Halldórsson skólastjóri en hann var skólastjóri í Brúarlandsskóla frá 1922.
Fyrsti áfangi Varmárskóla yngri deildar var fullbyggður 1964, áður var kennt í Brúarlandsskóla frá 1922. Þegar rýmkaðist um nemendur í Brúarlandsskóla 1961 var unglingunum kennt þar.

Um 1970 var hafist handa við að byggja Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar, núna eldri deildina. Hófst kennsla þar 1973.
Þegar mikið óveður gekk yfir landið í febrúar 1982 brotnuðu allar rúður á efri hæð skólans að austanverðu.
Árið 2001 voru Gagnfræðaskólinn og Varmárskóli sameinaðir undir nafninu Varmárskóli eldri og yngri deild. Skólinn var einsettur samkvæmt lögum 2001

Húsnæði skólans
Bæði skólahúsin voru byggð í áföngum. Varmárskóli yngri deild var byggður í þremur áföngum, síðasti áfanginn 1998, hátíðarsalurinn og fjórar kennslustofur á neðri hæð þeirrar álmu einnig var bætt við átta kennslustofum í suður og norður álmum hússins.

Hönnun 1. áfanga , vesturálman, var unnin árið 1960 hjá Húsameistara ríkisins af Guðmundi Guðjónssyni arkitekt.
Hönnun 2. áfanga, austur-og suðurálma ásamt tengibyggingu, var unnin af Þorvaldi Kristmundssyni arkitekt og Magnúsi Guðmundssyni árið 1979.

Um 1970 var hafist handa við að byggja Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar, núna eldri deildina.Birgir Breiðdal var arkitekt skólans. Hófst kennsla þar 1973.

Hönnun 3. áfanga yngri deildar, viðbyggingar við vestur- og austurálmu ásamt stækkun tengibyggingar og norðurálma, var unnin af Vilhjálmi Hjálmarssyni arkitekt árið 1997.

Skólastjórar Varmárskóla og Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar

Varmárskóli:
 • Lárus Halldórsson var skólastjóri Varmárskóla frá 1961 – 1966. 
 • Ólafur Ingvarsson var skólastjóri frá 1966 – 1970
 • Tómas Sturlaugsson frá 1970 – 1977
 • Pétur Bjarnason frá 1977 – 1983
 • Birgir D. Sveinsson 1983 – 1996 og 1997 – 2000
 • Þyri Huld Sigurðardóttir frá 1996 – 1997 og haustið 2000.
 • Viktor A. Guðlaugsson var skólastjóri sameinaðs grunnskóla eldri og yngri deildar frá 2001 – 2007.
 • Þórhildur Elfarsdóttir tók við sem skólastjóri í eldri deild skólans og Þóranna Rósa Ólafsdóttir sem skólastjóri í yngri deild árið 2007.

Brúarlandsskóli/Gagnfræðaskólinn
 • Gylfi Pálsson var skólastjóri Brúarlandsskóla og svo Gagnfræðiskólans frá 1966 – 1986 og 1987 - 1991.
 • Einar Georg Einarsson , var skólastjóri 1986 – 1987
 • Ragnheiður Rikharðsdóttir frá 1991 – 2000 en þá var Gagnfræðaskólinn og Varmárskóli sameinaðir undir nafninu Varmárskóli eldri og yngri deild.

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira