logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Fréttir eftir mánuðum

Samgöngubann og börn - Children and ban on gatherings

22/03/20
Skólar, leikskólar og íþróttafélög hafa skipulagt vandlega fyrirkomulag næstu daga og vikur til að fara eftir fyrirmælum heilbrigðisráðherra um takmarkanir á skólastarfi og samkomum. Það er mikilvægt að forráðamenn barna dragi á sama tíma úr fjölda einstaklinga í tengslaneti barna sinna utan skólatíma til að vinna ekki gegn þessum ráðstöfunum. Gott er að hafa eftirfarandi í huga: . Skólafélagar sem ekki eru í sama hópi í skólastarfinu ættu ekki að vera í návígi utan skóla. . Hafi börnin þroska til að fara eftir leiðbeiningum sem snúa að minni snertingu við vini er ekki útilokað að þau geti hist í leikjum. Leikirnir mega ekki fela í sér beina snertingu, notkun á sameiginlegum leikföngum eða búnaði sem snertur er með berum höndum. . Börn og ungmenni ættu ávallt að þvo sér vel um hendur bæði áður en þau hitta félaga sína og eftir að þau koma heim. . Fjölskyldur ættu að hafa í huga að ef börnin umgangast mikið vini eða frændsystkini úr öðrum skólum eða skólahópum þá verður til tenging milli hópa sem annars væru aðskildir. Slíkt ætti að forðast eins og kostur er. . Fjölskyldur eru hvattar til að nýta sér tæknina til að halda góðum tengslum við ástvini sem eru í áhættuhópum vegna COVID-19 sýkinga, eldra fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma. . Einnig væri hægt að nota tækifærið að kenna börnunum að skrifa sendibréf og æfa í leiðinni skrift, stafsetningu, virkja ímyndunaraflið og hugsa í lausnum þegar kemur að samskiptum við ástvini okkar. Varðandi heimili þar sem sumir eru í sóttkví en aðrir ekki: . Börn sem hafa þroska og getu til að sinna eigin hreinlæti og halda viðeigandi fjarlægð við foreldra sem eru í sóttkví sem og við skólafélaga geta áfram sinnt námi í skólastofu. Mikilvægt er að gæta að hreinlæti t.d. nota sér salernisaðstöðu. . Foreldrar stálpaðra barna sem eru í sóttkví og geta haldið viðeigandi fjarlægð frá börnunum meðan á sóttkví stendur geta áfram sinnt vinnu á vinnustað ef fjarvinna er ekki í boði. . Heimilið verður allt að fara í sóttkví ef börn hafa ekki þroska eða getu til að virða þær ráðstafanir sem gilda í sóttkví. Önnur leið til að leysa slíkt væri ef þeir sem ekki eru í sóttkví færu eitthvað annað á meðan á henni stendur.
Meira ...

Skólastarfið á meðan samkomubannið varir

20/03/20
Yfirvöld almannavarna sett á samkomubann í landinu sem hefur áhrif um allt samfélagið, þar með talið á grunnskóla landsins. Skólunum er heimilt að halda úti skólastarfi að því gefnu að ekki séu fleiri en 20 nemendur í sama kennslurými og enginn samgangur verði á milli hópa. Skólarnir geri ráðstafanir til að þrífa húsnæðið sérstaklega vel og sótthreinsa eftir þörfum á hverjum degi.
Meira ...

Frá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu um starfsemi grunn- og leikskóla, íþrótta- og menningarmála.

15/03/20
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa síðan á föstudag unnið að útfærslu á skólastarfi, starfsemi íþróttamiðstöðva, sundlauga og menningarhúsa næstu vikna í samræmi við tilmæli sóttvarnarlæknis og stjórnvalda. Í ljósi þess að skólastarf verður með mismunandi hætti milli sveitarfélaga og innan sveitarfélaga eru íbúar á höfuðborgarsvæðinu beðnir um fylgjast vel með upplýsingum sem birtast munu á heimasíðum sveitarfélaganna og heimasíðum grunn- og leikskóla og þeirra stofnana sem við eiga. Rétt er að ítreka að á morgun, mánudaginn 16. mars verður starfsdagur í grunn- og leikskólum höfuðborgarsvæðisins þar sem stjórnendur og starfsfólk vinna nú að skipulagningu skólastarfs miðað við ofangreindar ákvarðanir. Frekari upplýsingar um skólastarf verður að finna á heimasíðun skólanna. Þá verða sundstaðir og íþróttamiðstöðvar lokaðar til að vinna að útfærslum á starfsemi þeirra miðað við tilmæli. Grunnskólar á höfuðborgarsvæðinu Kennsla verður í hópum með ekki fleiri en 20 nemendum og ekki verður um blöndun hópa að ræða innan skóladagsins. Skólar munu halda úti eins miklu skólastarfi og kennslu og kostur er við þessar aðstæður. Það verður í höndum hvers sveitarfélags og skóla að útfæra skiptingu kennslu milli viðveru í skóla og náms heima. Nákvæm útfærsla verður því ólík milli skóla á höfuðborgarsvæðinu. Öll hefðbundin kennsla í list- og verkgreinastofum mun falla niður og íþrótta- og sundkennsla verður í formi hreyfingar á skólalóð, inni í hópastofum eða annarrar útikennslu. Hver skóli skipuleggur nánari tilhögun skóladagsins og kennslutilhögun. Sér- og starfsdeildir verða með óbreytta starfsemi eftir fremsta megni. Þá verður matarþjónusta í boði í skóla ef mögulegt er að koma því við. Öll neysla á mat fer fram í heimastofum eða í matsal skóla þar sem því verður við komið. Vettvangsferðir falla niður ásamt ferðum í skólabúðir. Leikskólar á höfuðborgarsvæðinu Gert er ráð fyrir því að halda starfsemi leikskóla gangandi á sem öruggastan hátt með þeim hætti að börn verði í sem minnstum hópum og aðskilin sem mest. Vegna þessa raskast skólastarf í leikskólum og opnunartími getur breyst s.s. vegna þrifa sem nauðsynleg eru. Hver leikskóli á höfuðborgarsvæðinu mun upplýsa foreldra um útfærslu á skólastarfi á heimasíðu eða í gegnum aðra miðla. Sundstaðir og íþróttamiðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu Fjöldatakmarkanir miðast við 100 manns í sama rými í einu og tveggja metra fjarlægð verði milli einstaklinga. Sundlaugar eiga á flestum tímum dagsins að geta uppfyllt fyrra skilyrðið en tveggja metra fjarlægð er erfitt að uppfylla í sundlaugum og í íþróttahúsum. Það er ljóst að samkvæmt þeim tilmælum sem borist hafa, mun íþróttastarf og rekstur íþróttamannvirkja riðlast á næstunni. Endurskipuleggja þarf verkferla með tilliti til nýrra krafna um sóttvarnir og til að tryggja öryggi gesta og starfsmanna sundlauga og íþróttamiðstöðva. Allir sundstaðir og íþróttamiðstöðvar verða því lokaðar mánudaginn 16. mars og dagurinn nýttur til ákvarðanartöku um framhaldið í samstarfi við viðeigandi aðila. Frístundaheimili og félagsmiðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu Frístundaheimili verða opin í framhaldi af skóladegi yngstu nemenda en viðbúið er að starfsemi muni að einhverju leyti skerðast. Starfsemi félagsmiðstöðva tekur breytingum þar sem megináhersla verði á að mæta félagsþörf án þess að skörun verði milli hópa eða bekkja. Til dæmis með hópaskiptingu eða árgangaskiptingu í opnunum og lögð áhersla á hópastarf en ekki stærri samkomur. Nákvæm útfærsla verður ólík milli félagsmiðstöðva. Tónlistarskólar og skólahljómsveitir á höfuðborgarsvæðinu Tímar í hljóðfærakennslu og söngkennslu fara fram í húsnæði eða heimastöð tónlistarskóla eða skólahljómsveita. Hóptímar s.s. hljómsveitartímar, hópæfingar, tónfundir, forskóli og tónfræðitímar falla niður. Allir viðburðir tengdir þessari starfsemi falla niður. Viðmið þessi taka einnig til tónlistarnemenda sem eru eldri en 18 ára. Lögð er áhersla á að leitað sé leiða til að viðhalda virkni óháð fjarveru og niðurfellingu tónlistartíma. Nákvæm útfærsla verður ólík milli skóla. Skólaíþróttir og íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu Ekki verður hefðbundin íþrótta- og sundkennsla á vegum grunnskóla í samkomubanninu. Viðkomandi húsnæði verður lokað fyrir skólakennslu og íþrótta- og sundkennarar vinna með námshópnum í heimastofu eða úti á skólalóð. Íþróttafélög munu gefa út eigin tilkynningar um íþróttaæfingar. Tilkynningar eru þegar komnar frá íþróttasamböndum um leikjabann. Menningarstofnanir á höfuðborgarsvæðinu Söfnin á höfuðborgarsvæðinu, listasöfn, bókasöfn og sögusöfn halda óbreyttum opnunartíma þrátt fyrir samkomubann en boðuðum viðburðum verður aflýst eða frestað, svo sem leiðsögnum, listsmiðjum og málþingum, á meðan samkomubannið er í gildi. Á söfnum eru gestir hvattir til að hafa hæfilega fjarlægð sín á milli. Áfram verður lögð áhersla á aukin þrif í söfnunum á höfuðborgarsvæðinu umfram venjubundna ræstingu. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru hvattir til að fylgjast vel með upplýsingum sem birtast munu á heimasíðum sveitarfélaganna og heimasíðum grunn- og leikskóla og þeirra stofnana sem við eiga. Þá eru íbúar jafnframt hvattir til að fylgja leiðbeiningum landlæknis um viðbrögð við veirunni inn á covid.is. Við erum öll almannavarnir. Virðingarfyllst, Stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Meira ...

Starfsdagur mánudaginn 16. mars 2020

13/03/20
Varðar: Tilkynning frá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu er varðar starfsemi grunn- og leikskóla. Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum í dag hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga sem felur m.a. í sér að skólahald verður takmarkað tímabundið. Nánari útfærslur verða unnar samkvæmt tilmælum stjórnvalda. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vinna nú að skipulagningu skólastarfs m.v. ofangreindar ákvarðanir. Þegar hefur verið ákveðið að mánudaginn 16.mars verði starfsdagur í grunn- og leikskólum á höfuðborgarsvæðinu til þess að stjórnendur og starfsmenn grunn- og leikskóla geti skipulagt skólastarfið sem best á þessu tímabili sem takmörkunin nær til. Foreldrar leik- og grunnskólabarna eru beðnir um fylgjast vel með upplýsingum sem birtast munu um helgina og á mánudaginn m.a. á heimasíðum sveitarfélagnan og heimasíðum grunn- og leikskóla. Þá eru í undirbúningi sameiginlegar leiðbeiningar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um frístundaheimili, íþróttastarf, íþróttamannvirki, skólahljómsveitir, og aðrar tómstundir barna. Stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Meira ...

Staða mála varðandi Covid 19 í Varmárskóla

12/03/20
Skólar í Mosfellsbæ starfa samkvæmt skilgreindri viðbragðsáætlun og ávallt er brugðist við í fullu samræmi við fyrirmæli almannavarna og landlæknis. Nú eru 15 nemendur og 2 starfsmenn í sóttkví í Varmarárskóla samkvæmt fyrirmælum landlæknis. Enginn tilkynnt smit eru í skólanum. Við þessar aðstæður er starfsemi skólans óbreytt. Komi upp smit í skólum þá eru allar ákvarðanir á forræði rakningateymi landlæknis sem hefur samband við hlutaðeigandi starfsfólk og foreldra sem og skólastjóra. Almennar upplýsingar og ráð Eins og fram hefur komið í póstum til allra foreldra/forráðamanna barna í grunn- og leikskólum Mosfellsbæjar þá eru foreldrar beðnir um að fylgjast vel með nýjustu upplýsingum um þau svæði sem skilgreind eru sem hættusvæði. Ef börn eða fjölskyldur þeirra ferðast um þau svæði, þurfa þau fara í sóttkví samkvæmt leiðbeiningum landlæknis. Foreldrum barna með skert ónæmiskerfi eða undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma er ráðlagt af heilbrigðisyfirvöldum að ráðfæra sig við viðkomandi sérfræðing eða heimilislækni. Samhliða er biðlað til allra þeirra sem finna fyrir einkennum og hafa mögulega verið útsettir fyrir smiti t.d. vegna ferðalaga að hringja í síma 1700 og fá leiðbeiningar. Að öðru leyti þá eru grunnskilaboðin þessi: Þvoum okkur um hendurnar, hættum að heilsast með handbandi, hlustum á ráð sérfræðingana, tökum hlutunum með ró og förum eftir leiðbeiningum um hreinlæti og breytta hegðun.
Meira ...

Bréf frá Almannavörnum vegna COVID-19 – Letter from Department of Civil Protection and Emergency Management

12/03/20
Skólar starfa nú samkvæmt viðbragðsáætlunum sínum og bregðast við aðstæðum með hliðsjón af fyrirmælum sóttvarnarlæknis og almannavarna. Mikilvægt er að nemendur, foreldrar og forráðamenn geri það einnig.
Meira ...

Viðbragðsáætlun og Mosfellsbæjar

10/03/20
Hér á heimasíðunni má finna Viðbragðsáætlun Varmárskóli 2020 undir Hagnýtt - Áætlanir og handbækur. Þar má einnig finna Viðbragðsáætlun um heimsfaraldur veirusýkinga - Mosfellsbær
Meira ...

Varmárskóli undirbýr sig fyrir samræmd próf

09/03/20Varmárskóli undirbýr sig  fyrir samræmd próf
Undirbúningur er nú á fullu í Varmárskóla fyrir samræmd próf og hafa öll lyklaborð og tölvur verið sótthreinsuð.
Meira ...

Verkfalli aflýst

09/03/20
Verkfalli hefur verið aflýst og því skólastarfið með hefðbundunum hætti.
Meira ...

Fyrirhugað verkfall

06/03/20
Skipulag skólastarfs í Varmárskóla ef til verkfalls kemur Neðanlega má sjá mikilvægar upplýsingar um skipulag skólastarfs á mánudag og þriðjudag (9. og 10. mars). Ef verkföllum er aflýst þá mun allt skóla- og frístundastarf verða með eðlilegum hætti. Boðuð hafa verið verkföll aðildarfélaga BSRB næstu vikurnar. Um er að ræða tímabundin verkföll ákveðna daga til að byrja með og síðan ótímabundin verkföll frá 15. apríl (sjá yfirlit www.bsrb.is). Starfsmannafélag Mosfellsbæjar er innan BSRB og því eru margir starfsmenn bæjarins á leið í verkfall. Í skólum Mosfellsbæjar er um að ræða starfsmenn í mötuneytum/eldhúsum, skólaliða, stuðningsfulltrúa, starfsmenn og deildarstjóra á leikskólum, starfsfólk í ræstingum, umsjónarmenn fasteigna, kerfisstjóra, starfsfólk á skrifstofu og einnig fara starfsmenn íþróttamiðstöðva og félagsmiðstöðvar í verkfall. Áhrif verkfallsins munu verða víðtæk og hafa áhrif á starfsemi allra leik- og grunnskóla í Mosfellsbæ, frístund og félagsmiðstöðvar sem og starfsemi íþróttamiðstöðva/sundlauga. Samningaviðræður standa yfir og eru foreldrar beðnir að fylgjast vel með fréttum fjölmiðla og heimasíðum skóla. Grunnskólar  Áformuð tímabundin verkföll frá 9. mars til og með 1. apríl.  Áformað ótímabundið verkfall frá 15. apríl.  Í grunnskólum Mosfellsbæjar verður umtalsvert skert þjónusta: Þrif verða með ólíkum hætti eftir skólum þar sem misjafnt er hvort um er að ræða aðkeypta ræstingaþjónustu eða ekki. Þar sem skerðing verður á þrifum þá verður opnun á húsnæði endurskoðuð á þriðja degi en það er Heilbrigðiseftirlitsins að taka ákvarðanir um lokun húsnæðis Mötuneyti loka og falla gjöld niður þann tíma sem verkfall varir. Frístund  Ótímabundið verkfall frá 9. mars 2020.  Frístundarleiðbeinendur verða í verkfalli og starfsmenn sem sinna þrifum í húsnæði frístundar verða í verkfalli. Opnun á húsnæði er endurskoðuð á þriðja degi.  Frístundagjöld falla niður þann tíma sem barni er ekki boðin frístundavistun. Félagsmiðstöðvar  Áformuð tímabundin verkföll frá 9. mars til og með 1. apríl.  Áformað ótímabundið verkfall frá 15. apríl.  Félagsmiðstöðin lokuð á öllum starfsstöðvum, í Varmárskóla, Lágafellsskóla og Helgafellsskóla.   Mánudagur 9. mars og þriðjudagur 10. mars. Skólastarf í Varmárskóla  Engin gæsla er milli kl. 8:00 – 8:10 og er ekki ætlast til að nemendur mæti fyrr en kl. 8:10.  Kenndar verða fyrstu tvær kennslustundirnar frá kl. 8:10 – 9:35.  Sækja þarf nemendur tímanlega þar sem ekki er hægt að tryggja öryggi nemenda eftir að kennslu lýkur kl. 9:35.  Stuðningur við nemendur með sérþarfir verður ekki til staðar þar sem stuðningsfulltrúar koma að stuðningi.  9. bekkur mætir í samræmd próf á þriðjudag eftir því skipulagi sem skólinn sendi út í morgun til foreldra nemenda í 9. bekk.  Nemendur sem eiga fara í íþróttir og/eða sund á þessum tíma mæta í þær greinar hjá sínum íþróttakennurum í aðalandyrum yngri- og eldri deildar eftir því sem við á.  Skólabílar munu ganga samkvæmt venjulegri áætlun, þar sem skólastarfi lýkur kl. 9:35 þarf að sækja nemendur sem alla jafna nota skólabíl, þar sem skólabíllinn gengur ekki á þeim tíma. Ekki verður gæsla í skólabílum. Akstur eftir frístund heldur sér. Frístund í Varmárskóla Frístund við Varmárskóla er opin en með verulegri skerðingu á þjónustu. Tveir starfsmenn frístundar (forstöðumaður og aðstoðarforstöðumaður) munu taka á móti börnum ef til verkfalls kemur. Mjög takmarkaður fjöldi barna getur verið í frístund hverju sinni frá 13.30 - 17.00 og mun skipulag verða sent til þeirra foreldra sem eru með börn í frístund seinna í dag. Ef frekari upplýsinga er óskað er hægt að senda fyrirspurn á póstföngin thorhildure@varmarskoli.is eða annagreta@varmarskoli.is Vert er að taka fram að þjónusta og símsvörun á skrifstofu skólans verður ekki til staðar.
Meira ...

Frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra vegna COVID-19

01/03/20
Ágætu foreldrar / forráðamenn Í ljósi þess að nú hefur hættustigi almannavarna verið lýst yfir vegna COVID-19 kórónaveirunnar áréttar almannavarnadeild ríkislögreglustjóra mikilvægi þess að allir fylgi leiðbeiningum sóttvarnarlæknis. Nýjustu upplýsingar eru ávallt að finna á vef Landlæknisembættisins: www.landlaeknir.is Foreldrar eru beðnir um að fylgjast reglulega með nýjustu upplýsingum um þau svæði sem skilgreind eru sem hættusvæði. Ef börn eða fjölskyldur þeirra ferðast um þau svæði, þurfa þau fara í sóttkví skv. leiðbeiningum Landlæknis. Foreldrum barna með skert ónæmiskerfi eða undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma er ráðlagt af heilbrigðisyfirvöldum að ráðfæra sig við viðkomandi sérfræðing eða heimilislækni. Einstaklingar sem finna fyrir einkennum og hafa mögulega verið útsettir fyrir smiti t.d. vegna ferðalaga eru hvattir til að hringja í síma 1700 og fá leiðbeiningar. Þeir sem verið hafa í nánu samneyti við einstaklinga með staðfesta eða líklega sýkingu verða settir í sóttkví og hið sama á við um þá sem ferðast hafa á undanförnum dögum til skilgreindra hættusvæða.
Meira ...

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira