logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Útinám/umhverfisfræðsla

Varmárskóli hefur undanfarin ár verið virkur og leiðandi í útinámi í Mosfellsbæ. Markmið okkar er að fá alla kennara með í útikennslu.

Starfsfólk skólans hefur komið upp glæsilegu útikennslusvæði fyrir neðan íþróttahúsið við Varmána. Nemendur í eldri deild hafa lært gamalt íslenskt handverk og hlaða upp vegg á svæðinu til að mynda skjól. Skólagarðarnir hafa verið nýttir undanfarin ár til að rækta grænmeti og afurðir verið nýttar að hausti í heimilisfræðikennslu.

Varmárskóli skráði sig í verkefnið "Skóli á grænni grein" skólaárið 2009-2010. Síðan þá hefur skólasamfélagið unnið ötullega að því að gera skólann og viðhorf okkar sem þar starfa jákvæð fyrir umhverfismálum.

Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu í skólum. Þeir skólar sem vilja komast á græna grein í umhverfismálum leitast við að stíga skrefin sjö. Þegar því marki er náð fá skólarnir leyfi til að flagga Grænfánanum næstu tvö ár en sú viðurkenning fæst endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi. Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Skrefin sjö eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Verkefnin eru bæði til kennslu í bekk og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau auka þekkingu nemenda og skólafólks og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skóla. Jafnframt sýnir reynslan í Evrópu að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri.

Frá áramótum 2010 hefur Varmárskóli flokkað sorp með góðum árangri.
Útinám, heilbrigt líferni og sjálfbær þróun hefur verið helsta verkefni skólans undanfarin ár. Við skólann er komið útikennslusvæði sem er í stöðugri þróun.

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira