logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla 2.febrúar 2024

02.02.2024 14:53

Skólaráð Varmárskóla fundaði í vikunni. Á fundinum ræddum við um skóladagtal, fjármál, húsnæðismál og vetrarfrí. 

Við þurfum að gera breytingar á skóladagatali þessa árs þar sem starfsmannahópurinn er að fara í fræðsluferð til London 24.-27.apríl. Upphafleg áætlun var að fara út með kvöldflugi þann 24.en það gekk ekki upp og þurfum við að senda starfsmannahópinn í tvennu lagi fyrr um daginn. Við þurfum því að ljúka skóla hjá 3.-6.bekk kl.12:00 þann 24.apríl. Frístund verður opin síðdegis og við eigum eftir að leggja lokahönd á skipulagningu dagsins. Við höfum fengið samþykki fræðsluyfirvalda fyrir þessari breytingu og kynnt hana í skólaráði.  Við munum minna foreldra á þetta þegar nær dregur en vildum láta vita að þessu eins fljótt og hægt var. Í ferðinni mun starfsfólk kynna sér leiðsagnarnám og heimsækja skóla sem standa framarlega í þeirri kennsluaðferð.

Rekstur skólans gekk vel á síðasta ári og lokauppgjör verður líklega um tvö prósent undir fjárhagsáætlun. 

Við eigum von á nokkurri fjölgun nemenda á næsta skólaári og það er áskorun að mæta því þar sem nú höfum við ekki lengur starfssemi í Brúarlandi en við erum að skoða ýmsa möguleika á niðurröðun í húsnæði. 

Til að ljúka þessum pistli er gaman að nefna að á skólastjóraröltinu í morgun mátti sjá nemendur vinna allskonar fjölbreytt og skemmtileg verkefni. Í vikunni var 100 daga hátíð í 1.bekk, þá var því fagnað að nemendur höfðu nú verið 100 daga í skólanum.  Eitt sem nemendur gerðu var að gera mynd af sér þegar þeir verða 100 ára. Nú þar var einnig verið að vinna að kærleiksstjörnu þar sem nemendur einbeittu sér við að klippa og skrifuðu svo falleg orð inn í miðju stjörnunnar. Í 4.bekk var stærðfræði og það var gaman að sjá einbeitinguna sem nemendur sýndu og hversu sveigjanlegt námsumhverfi þeirra er alla daga. 

Við minnum á að í næstu viku eru foreldraviðtöl. Vonandi eru allir búnir að skrá sig á mentor.

Hafið það gott um helgina

Kv

Starfsfólkið í Varmárskóla

Til baka

Myndir með frétt

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira