logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla 26.janúar 2024

26.01.2024 11:11

Af okkur er það helst að frétta að núna eru bekkir að endurskoða bekkjarsáttmálana sína. Sú vinna felur í sér að nemendur ræða saman um hvernig gengur að vinna að því andrúmslofti sem þeir höfðu valið sem mikilvægt og ákveðið að skapa í bekknum. Þessi vinna er bæði hluti af lýðræðisvinnunni okkar í Varmárskóla og því að efla ábyrgð nemenda á eigin framkomu og hegðun. Þegar nemendur læra að líta í eigin barm og skoða hvað betur mætti fara til að heildinni líði betur og tala saman um hvers konar hegðun styður gott námsumhverfi, verða þeir um leið meðvitaðri um hlutverk og ábyrgð hvers og eins í því að búa til gott samfélag fyrir alla. Með fréttinni fylgir smá myndbandsbútur frá vinnu 4.bekkjar í þessu verkefni. https://youtu.be/GPVkRUcfi7E


Annað sem er nýtt af nálinni hjá okkur er að allur 6.bekkur hefur verið að vinna að áhugasviðsverkefni. Þetta er fjögurra vikna lota og unnið er með tvö þemu. Markmið þessa er einnig að efla ábyrgð á eigin námi, kenna heimildavinnu og veita rými fyrir sköpun. Nemendur vissu fyrirfram eftir hvaða viðmiðum verkefnin yrðu metin og aðeins eitt af þeim snýst um innihald verkefnisins. Hin snúa öll að framtakssemi, vinnulagi og því hvernig nemendur taka leiðbeiningum kennara.  Á fimmtudaginn voru skil á fyrra verkefni nemenda. Það er skemmst frá því að segja að verkefnið stóð algjörlega undir væntingum kennara og ekki var annað að sjá en nemendur hefðu virkilega lagt sig fram og notið vinnunnar.  Fjölbreytni í verkefnum var mikil, krakkarnir gerðu glærukynningar, podköst, spurningakeppnir, hugarkort, smíða, sauma og myndlistarverkefni og margt fleira. Sjón er sögu ríkari og nokkrar myndir fylgja með þessari frétt og fleiri koma á facebooksíðuna okkar. Skemmtilegast var þó að sjá stoltið í augum nemenda þegar þeir voru að kynna verkefnin sín.


Í lokin langar mig svo aðeins að fjalla um tölvuleikjaspilun. Fyrr í vikunni þurfum við að nota mikinn tíma í að aðstoða krakka við að leysa úr vandamálum sem komu til vegna þess að einhverjir ákváðu að hefna sín í skólanum fyrir það sem hafði gerst í tölvuleikjum helgarinnar. Þannig koma allskonar mál inn í skólann, því auðvitað aðstoðum við nemendur við að leysa úr slíkum málum. En í þeirri vinnu kom í ljós að allir viðkomandi höfðu verið að spila bannaða leiki og okkur grunar að það geti átt við um fleiri nemendur. Leiki sem eru svo ofbeldisfullir að þeir eru ýmist bannaðir innan 16 eða 18 ára aldurs, það er að segja Call of Duty og GTA. Okkur langar að biðja foreldra að hafa í huga að þessi aldurstakmörk eru sett af ástæðu og ungir krakkar hafa ekkert með það að gera að leika sér að ofbeldi. Það er alls ekki hollt fyrir neinn og allra síst fyrir huga sem eru að þroskast og mynda sér skoðanir á hvað er rétt eða rangt í samfélagi. 


Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í Varmárskóla


Til baka

Myndir með frétt

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira