logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla 19.janúar 2024

19.01.2024 10:13

Skólastarf snýst um að efla nám og þroska og það er einstaklega gaman og gefandi að fylgjast með nemendum taka framförum yfir skólaárið. Núna þegar janúar er hálfnaður sjáum við allskonar merki um framfarir bæði hvað varðar nám og almennan þroska nemenda. Það er svo skemmtilegt að sjá að eitthvað sem taldist mjög erfitt í upphafi skólaárs er allt í einu orðið ekkert mál. 

Framfarir í námi og þroska eru svo miklu meira en bara að auka færni sína í hefðbundnum námsgreinum.  Um þessar mundir erum við með svokallað áhugasviðsverkefni í 6.bekk. Skipulag þess er þannig að nemendur velja sér viðfangsefni úr tilteknum flokkum og hafa svo mjög mikið svigrúm og val um hvernig þeir vinna með það. Núna er yfirheiti verkefnisins ,,dýr”. Markmið þessa verkefnis er margþætt, meðal annars að æfa nemendur í að setja fram rannsóknarspurningar, skipuleggja vinnu sína, gera verkáætlun, afla upplýsinga og geta heimilda og síðast en ekki síst að kynna niðurstöður sínar fyrir öðrum. Í þessari vinnu eiga allir að gera annað hvort glærusýningu eða veggspjald og svo eitthvað annað, sem má nánast vera hvað sem er og það er sannarlega margt í gangi eins og sjá má af myndunum sem fylgja þessari frétt.

Markmið náms eru svo margbreytileg og við höfum tröllatrú á því að það skipti í raun og veru mestu máli að nemendur okkar læri að læra, geti aflað sér nýrrar þekkingar, komið henni í orð og kynnt fyrir öðrum og þetta verkefni er hannað í þeim tilgangi.

Vegna kuldans viljum við líka ítreka að viðmið okkar fyrir því að nemendur fari í útilaugina í sundtímum er að hitastigið sé ekki undir -6 gráðum. Ef það er kaldara en það erum við með krakkana inni.

Hafið það gott um helgina

Starfsfólkið í Varmárskóla

Til baka

Myndir með frétt

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira