logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla 8.des

08.12.2023 11:46

Á mánudag funduðu foreldrar barna í 5.bekk um skjánotkun. Þetta var í annað skipti sem hópurinn hittist til að ræða þetta mikilvæga málefni sem tengist líðan barna á svo margan hátt. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á neikvæð áhrif of mikillar skjánotkunar á þroskaþætti barna. Frábært framtak hjá foreldrum.

Fjórði bekkur stefnir á ferð til Vestmannaeyja í tengslum við eldgosaþema sem þar hefur verið unnið að. Það er dýrt að fara til Eyja og það var ekki á fjárhagsáætlun svo ákveðið var að reyna að safna fyrir ferðinni til dæmis með því að safna dósum og vera með sýningar á verkum nemenda. Í gær voru þau með myndlistarsýningu og vöfflusölu og það er skemmst frá því að segja að þau hafa nú safnað fyrir kostnaði við ferðalagið svo ljóst er að 4.bekkur mun fara í dagsferð til Vestmannaeyja í vor og fræðast um eldgos og fleira tengt Eyjum. Sannarlega vel gert og við þökkum foreldrum og öðrum gestum fyrir stuðninginn.

Við vinnum með íslenskt mál á fjölbreyttan hátt alla daga. Eitt af okkar stærstu verkefnum er að hjálpa nemendum að byggja upp orðaforða og þroska málvitund. Það er flókið ferli og mikilvægt að allir í umhverfi barna geri sér grein fyrir hversu mikilvægar samræður eru í þessum tilgangi. Um þessar mundir leggur til dæmis fyrsti bekkur sérstaka áherslu á orð sem tengjast jólunum eins og sjá má á meðfylgjandi mynd og tilvalið er að tala um heima líka. Á miðvikudag kom svo rithöfundurinn Kamilla Kjerúlf og las úr bókum sínum fyrir nemendur í 3. og 4. bekk.

Við erum stolt af því fjölbreytta skólastarfi sem fram fer í Varmárskóla á hverjum einasta degi. Á dögunum fengum við sent myndband sem gestir sem komu í skólann gerðu. Það var einstaklega gaman að sjá með hvaða augum gestir líta skólann okkar og vonandi fáum við leyfi til að sýna ykkur það. Bara í þessari viku var svo meðal annars Tarsanleikur í íþróttum og rennsliskeppni farartækja í nýsköpun. Í dag ilmaði svo húsið þar sem 6.bekkur var að læra að baka pönnukökur í heimilisfræði.  Þetta eru allt þættir sem eru illmælanlegir með þeim mælikvörðum sem við kunnum vel, á en búa sannarlega til góðan skólabrag og byggja upp mikilvæga færni til framtíðar.

Við minnum á að næsta vika er síðasta heila vikan fyrir jólafrí.

Hafið það gott um helgina

Starfsfólkið í Varmárskóla

Til baka

Myndir með frétt

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira