logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla 3.nóv 2023

03.11.2023 13:27

Þá er enn ein viðburðaríka vikan að baki hjá okkur í Varmárskóla.

Við höfum fengið góða gesti, bæði alvöru gesti og allskonar furðuverur sem voru hér á þriðjudaginn.  Þann dag kom líka Einar Mikael, töframaður með sýningu fyrir nemendur þar sem þeir höfðu verið svo frábærlega duglegir að lesa í Hrekkjavöku-lestrarátakinu.

Í dag komu svo þau Hjörleifur Hjartarson og Rán Flygering, rithöfundar, myndlistar – og tónlistarmenn og lásu upp, sögðu sögur og sungu með nemendum 1. og 2. bekkjar sem voru eins og myndin sýnir, algjörlega dolfallnir.

En þó að það sé oftast glaumur og gleði í Varmárskóla lærum við líka margt gott og gagnlegt. Nemendur 5.bekkjar voru í tölfræðiþema og enduðu á að gera sínar eigin kannanir og niðurstöðurnar voru að sjálfsögðu settar upp á veggi.

Í næstu viku verðum við með nemendaþing um varnir gegn einelti með nemendum 5. og 6. bekkjar. Liður í undirbúningi þess er að nemendur átti sig hvernig þeir skapa sér orðspor og hvernig orðsporið hefur áhrif á margt sem gerist í lífi manns. Nemendur hafa verið að búa til fótspor og skilgreina hvernig hegðun og framkoma er hjálpleg til að byggja upp gott orðspor.

Svo eru líka ,,venjulegir” dagar hjá okkur, flestir morgnar byrja með lestrarstundum og svo þið getið fengið smá innsýn í hversu dásamlegar stundir það eru, fylgja hér hlekkir á tvö myndbönd sem sýna það glögglega. Það er svo mikilvægt að skapa góðar venjur og notalegar stundir kringum lestrarþjálfunina. 

Lestrarstund í 4. bekk  https://www.youtube.com/watch?v=AwTAn1Fu09c

Lestrarstund í 3.bekk  https://www.youtube.com/watch?v=1cEsGWXMOrM

Svo þarf aðeins að minnast á umferðina í kringum skólann. Kæru foreldrar, viljið þið sýna gát þegar þið komið með börnin, sérstaklega á morgnana. Við erum oft dauðstressuð vegna hraðaksturs á stæðinu við íþróttamiðstöðina og ekki síður vegna kraðaksins sem myndast ef fólk keyrir inn á starfsmannastæðið, þar sem ekki er gegnumakstur og því þarf að bakka og snúa til að komast til baka. Þetta skapar oft hættuástand.

Að lokum minnum við svo á að á mánudag er viðtalsdagur og því ekki skóli hjá nemendum. Það væri líka frábært ef foreldrar gæfu sér tíma til að skoða í óskilamunina þegar þeir koma í viðtölin.

Hafið það gott um helgina

Starfsfólkið í Varmárskóla

Til baka

Myndir með frétt

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira