logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla 20 .okt 2023

20.10.2023 13:15

Þessi vika er búin að vera mjög viðburðarík hjá okkur.

 

Nemendur lesa af kappi og fígrúrulestin teygir sig upp á aðra hæð. Við getum lofað því að það verður skemmtileg viðurkenning í lok þessa átaks, enda hafa nemendur verið með eindæmum duglegir að æfa lesturinn.

 

Við vorum með valviku í verkgreinum. Valið í verkgreinum tengist starfsmarkmiði okkar um bætta líðan nemenda, aukinn námsárangur og bættan skólabrag. Með þessu eflum við sjálfstæði og seiglu, kveikjum áhuga nemenda á nýjum viðfangsefnum eða veitum þeim tækifæri til að sökkva sér ofan í eitthvað sem þeir hafa áhuga á.

 

Skólaráð fundaði í vikunni og þar komu fram nýjar og góðar ábendingar varðandi hönnun skólalóðarinnar sem við munum koma á framfæri við arkitektana.

 

Í tengslum við verkefni um menningu og tungumál fékk 2.bekkur heimsókn og kynningu frá foreldri sem hefur sterk tengsl við Nepal. Þetta var mjög skemmtilegt og við hvetjum ykkur foreldra til að gefa kost á ykkur með fræðslu í tengslum við verkefni nemenda þegar það hentar.

 

Nú til viðbótar við þetta allt var þema þessarar viku ,,samvinna". Við teljum mikilvægt að nemendur öðlist skilning á hvað hin ýmsu gildi sem við vinnum með þýða í raun og veru og hver áhrif þeirra eru í samfélaginu. Allskonar verkefni sem tengjast og útskýra hvað samvinna felur í sér voru unnin í bekkjunum og flest verkefni í valvikunni snerust um samvinnu að einhverju leyti. Nemendur 2.bekkjar hjálpuðust að við að gera vinabönd og nemendur 4.bekkjar notuðu samvinnu til að halda blöðru á lofti sem má sjá hér. https://youtube.com/shorts/dwHcSLOFGhI

 

Í sambandi við samfélagsmiðlanotkun nemenda langar okkur að vekja athygli á því að foreldrar í 5.bekk hafa tekið sig saman um að ræða hegðun barna á netinu og leggja drög að sáttmála um ,,útivistarreglur” sem gilda þar. Þá eru þeir einnig að ræða samfélagsmiðlanotkun og hvernig hægt er að kenna börnum viðeigandi hegðun í rafrænum samskiptum. Þetta er algjörlega til fyrirmyndar hjá þeim og ef fleiri foreldrahópar vilja fylgja í kjölfarið er skólinn alltaf opinn fyrir foreldra í svona vinnu.

 

Já það er alltaf líf og fjör í Varmárskóla eins og meðfylgjandi myndir sína.

 

Við minnum svo á að næsta vika er mjög óvenjuleg. Bara venjulegur skóladagur á mánudag.

Kveðja og hafið það gott um helgina

Starfsfólkið í Varmárskóla

Til baka

Myndir með frétt

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira