logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla 13.okt 2023

13.10.2023 15:26

Lestrarátakið hefur gengið mjög vel, krakkarnir eru mjög duglegir að lesa og fígúrulestin er farin að teygja sig upp á aðra hæð. 

Nemendur 6.bekkjar, sem hafa fengið þrjú ábyrgðarhlutverk hér í skólanum, fá líka að hafa áhrif á matseðil októbermánaðar. Þeir fá að velja hvað verður í matinn einn dag í vikunni fyrir vetrarfrí. En það er ekki einfalt fyrir 78 krakka að koma sér saman um eina máltíð. Þess vegna notuðum við tækifærið og settum upp kennslu í lýðræðislegum kosningum. Sett var upp kjörnefnd, útbúnir kjörseðlar, merkt var við á nafnalista við afhendingu kjörseðla og kosið leynilega. Talning var háalvarleg, kjörnefndarmönnum var skipað í pör og allt var talið af tveimur pörum.  Sem sagt ekkert kæruleysi í kjördeild Varmárskóla. Seinni umferð kosninganna verður svo á mánudag, þá verður kosið milli þeirra tveggja rétta sem flest atkvæði fengu.

Nemendur fjórða bekkjar eru að læra um eldgos og fengu í vikunni heimsókn frá Gísla Steini Péturssyni, sérfræðingi á sviði hamfara á Íslandi, sem er foreldri í árganginum. Gísli fræddi nemendur um almannavarnir og leyfði þeim að skoða búnað sem notaður er við rannsóknir í náttúruvísindum. Krakkarnir voru mjög áhugasamir og þessi heimsókn gaf námi þeirra mikið gildi. Við þökkum Gísla kærlega fyrir komuna.

Í fimmta bekk hafa nemendur verið að vinna með menningu og margbreytileika þessa vikuna. Krakkarnir völdu sér lönd og settu fram ýmsar upplýsingar um staðhætti og samfélag. Slík vinna hefur margskonar merkingu. Það þarf að afla upplýsinga, leggja mat á gildi þeirra og hvort þær séu líklegar til að vekja áhuga, velja um framsetningu og vanda frágang. Nemendur lögðu sig fram og þau verkefni sem voru komin upp á vegg sýndu að þau voru unnin af áhuga og metnaði.

Í næstu viku ætla allir árgangar að vinna á einhvern hátt með gildið samvinnu og það verður gaman að geta sýnt frá því að henni lokinni. Það væri líka skemmtilegt ef foreldrar skoðuðu með börnum sínum hvernig samvinna getur verið hjálpleg á heimilum og í hinu venjulega daglega amstri.

Hafið það gott um helgina

Starfsfólkið í Varmárskóla

Til baka

Myndir með frétt

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira