logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla 6.október

06.10.2023 15:40

Við reynum að vera í takti við tímann og gera eitthvað til tilbreytingar á dögum sem krökkum finnast skemmtilegir eða vekja sérstaka athygli þeirra. Þannig vonumst við til að þeir tengi betur skólalífið og það sem er að gerast í samfélaginu almennt. Í næstu viku hefst því lestrarátak sem verður tileinkað hrekkjavökunni. Það gengur út á að nemendur lesi sem flestar mínútur heima og í skóla og fái sérstakt lestrarkort til að skrá í þessa daga. Átakið hefst mánudaginn 9. október og síðasti lestrardagur verður 29. október. Þann 30. október skila nemendur lestrarkortunum til kennara sem telja þær mínútur sem nemandinn las á tímabilinu. Á hrekkjavökunni þann 31. október verður svo uppskerugleði.

 

Markmiðið með lestrarátakinu er að nemendur þjálfi lestrarfærni sína með yndislestri. Lestur með hljóðbók er tekinn gildur og einnig hlustun á hljóðbók. Hjá yngri nemendunum, sér í lagi hjá þeim sem eru að hefja lestrarnám, má skrá það sem er lesið fyrir þau af öðrum. Það er nefnilega með lesturinn eins og svo margt annað að þess iðnari sem maður er við að æfa sig þess meiri færni má maður búast við að ná. Þetta er eins og hver annar jákvæður spírall sem verður stærri og stærri og hefur margfeldisáhrif í kringum sig eftir því sem færnin eykst.  Mesta áskorunin er fyrir þau börn og foreldra þar sem lestrarnámið er ekki á fljúgandi ferð. Slíkt gerir miklar kröfur til þeirra sem sjá um að æfa með barninu að reyna að halda æfingunum jákvæðum og eftirsóknarverðum því þannig má búast við að árangur verði meiri. Í slíkum tilvikum er líka gott að útskýra að við erum ekki öll eins og höfum mismunandi hæfileika og þó að eitthvað gangi kannski stirðlega hjá okkur getum við verið góð í mörgu öðru og þess vegna er svo mikilvægt að missa ekki móðinn.

 

Við erum líka að vinna í margvíslegum verkefnum tengdum sköpun og tækni. Með þessari mynd fylgir mynd af samvinnuverkefnum sem unnin eru í myndmennt og handmennt. Í myndmennt fá nemendur leiðbeiningar um hvernig lógó þurfa að vera til að vekja athygli og koma vel út á fleti. Þeir skera lógin síðan út í vinly og pressa á sundpoka sem þeir sauma í textíl.  Þeir hópar sem fara fyrst í textíl byrja á pokanum og hanna svo lógóið á hann þegar hann er fullbúinn. Nemendur eru flestir himinlifandi með pokana sína enda eru þeir mjög flottir.

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira