logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla 22.september 2023

22.09.2023 16:48

Vinaliðaverkefni

Vinaliðaverkefnið fór vel af stað í haust. Þetta er verkefni sem leitt er frá Árskóla á Sauðárkróki og á fimmtudaginn komu kennarar frá þeim með leikjanámskeið fyrir krakkana sem eru vinaliðar á haustönninni. Að vera vinaliði felur í sér að maður fær að að fara aðeins fyrr af stað í frímínútur tvisvar í viku og á að standa fyrir leikjum fyrir aðra krakka. Þetta verkefni er bæði eflandi fyrir þá sem stýra leikjum og skapar aukin tækifæri til leikja fyrir alla krakka.

Góðviðri nýtt í kennslu

Þessa vikuna hafa margir kennarar nýtt góðviðrið til allskonar útikennslu, með þessari frétt fylgja myndir frá mynsturrannsóknum og sköpun fyrsta bekkjar.

Mötuneytið

Við erum himinlifandi með að vera komin með okkar eigið mötuneyti þar sem eldað er á staðnum og við getum fengið sveigjanleika í samræmi við skipulag skólastarfsins. Maturinn er hollur, ferskur og bragðgóður og við gætum öll verið stolt af því að bera svona mat á borð heima hjá okkur. Áhersla er á fjölbreytni, matarsóun verður miklu minni þar sem nýta má afganga eins og hægt er, en það mátti ekki hjá Skólamat þar sem matur mátti ekki fara aftur í hús til þeirra. Það er líka mikilvægt að börn æfi sig í að borða allskonar mat, það þroskar bragðlaukana, eykur forvitni og þau verða tilbúnari til að prófa nýja nýja hluti.

 

Skapandi hugsun og vísindalegar tilraunir

Í hönnun í 5.bekk hafa nemendur verið að læra að hanna hluti og skera þá út úr pappa. Þeir hafa bæði gert skó, sem átti að vera hægt að fara í, og nýjasta verkefnið var að hanna bíl og láta hann renna niður brekku. Vegalengdin sem bílarnir runnu var svo mæld og ,,sigurvegarinn” rann næstum þrjá metra. Við þessa vinnu er frábært að hafa cricut skerann þar sem hann sker nákvæmlega það sem nemendur teikna og þannig gátu þeir fengið alveg hringlaga hjól á bílana sína. Á þessari slóð má sjá stutt myndband frá rennsliskeppninni. https://youtube.com/shorts/6Sc_fpa92U0?si=JExCMuhaUOuxwNMQ

Það hafa verið talsverð brögð að því að átt sé við rafmagnshlaupahjól á skólalóðinni. Fiktað í tökkum og vírar og jafnvel bremsur aftengdar. Í dag sáu krakkar ,,unglinga" með skrúfjárn að fikta í hjóli. Við getum alls ekki varið eða passað hjól sem eru á lóðinni og því biðjum við foreldra að hugsa sig vel um áður þeir leyfa börnum að fara á svona tækjum í skólann.

Við minnum svo að lokum á að á fimmtudag í næstu viku er starfsdagur. Þá munu starfsmenn skólans verða í fræðslu bæði frá Samtökunum 78 og frá Kristínu Eddu, nýráðnum sérfræðingi á Fræðslusviði, sem mun fjalla um tækifæri til málörvunar.

Hafið það gott um helgina

Starfsfólk Varmárskóla

Til baka

Myndir með frétt

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira