logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla

05.05.2023 15:39

Þessi vika hefur verið svo erilsöm hjá okkur að við þyrftum heilt tímarit til að gera öllu almennileg skil.

Tveir fræðslufundir voru haldnir fyrir foreldra. Annars vegar rafrænn fyrirlestur frá Samfélagslöggunum fyrir foreldra í 6.bekk um ofbeldishegðun og það hvernig margt í umhverfi barna og unglinga gengur út á að ,,normailsera” slíka hegðun og hins vegar um ábyrgt netuppeldi fyrir foreldra í barna í 5.bekk. Foreldrar eru mikilvægustu fyrirmyndir barna sinna og samstaða þeirra í uppeldi skiptir miklu máli þess vegna er svo mikilvægt að þeir hafi vettvang til að tala saman um hvaða hegðun ber að styrkja og hvað ber að hjálpa börnum við að gera ekki.

Nemendur 4.bekkjar héldu lokahátíðir ,,Litlu upplestrarkeppninnar”. Foreldrum var boðið og bæði var lesið og sungið og ég sá ekki betur en allir skemmtu sér vel. Það var búin að vera mikil spenna í undirbúningnum og skemmtilegt að sjá hversu vel tókst til að lokum. Nokkrar myndir frá hátíðinni fylgja hér með.

Nemendur verðandi 1.bekkjar komu í heimsókn og skoðuðu skólann á fimmtudaginn, heimsókninni lauk svo með því að nokkrir nemendur úr 6.bekk buðu þeim í útileiki til að sýna þeim hvað hægt væri að gera í frímínútum.

Nemendur núverandi 1.bekkjar fengu afhenta hjálma frá Eimskipafélaginu og Kiwanisfélögum. Við notuðum tækifærið og fræddum nemendur um mikilvægi hjálmanotkunar og reglur um hjólreiðar. Samkvæmt lögum mega börn, yngri en níu ára, ekki vera eftirlitslaus á hjóli á akbrautum.

Nú í morgun komu svo Samfélagslöggurnar með fræðslu um ofbeldishegðun fyrir nemendur 6.bekkjar. Gera þarf börnum og ungmennum ljóst að ofbeldishegðun eins og þau sjá á netinu er ekki líðandi í venjulegu samfélagi. Það að horfa á ofbeldismyndbönd og deila þeim áfram virðist ,,gjaldfella” afleiðingar ofbeldis í huga krakka. Það er svo mikilvægt að við hjálpumst að við að kenna krökkunum okkar að þetta er ekki gagnleg hegðun í nokkru samhengi.

Til viðbótar við allt þetta voru svo venjulegar kennslustundir samkvæmt dagskrá eins og vera ber. Það er líf og fjör í Varmárskóla alla daga J

Við minnum á að nú hafa starfsmannafélög sveitarfélaganna boðað verkföll í þrjú skipti á komandi vikum, hið fyrsta 15.-16.maí. Slík verkföll munu hafa margvísleg áhrif á skólastarfið og því biðjum við ykkur að fylgjast vel með fréttum.

Hafið það gott um helgina

Starfsfólk Varmárskóla

Til baka

Myndir með frétt

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira