logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla

17.03.2023

Í þessari viku voru bæði annar og sjötti bekkur með foreldraboð. Foreldraboðin eru hluti af þeirri viðleitni okkar að upplýsa foreldra um hvað verið er að gera í skólanum og gera þeim kleift að sjá börnin sín í leik og starfi með bekkjarfélögunum. Í báðum þessum heimsóknum kynntu nemendur afrakstur þemavinnu. Annar bekkur hafði verið að vinna með eldgos, skjaldarmerki og þjóðbúninga og sjötti bekkur með mannslíkann. Þá hafa kennarar einnig nýtt foreldraboðin til að vinna með markmið tengd íslensku og lífsleikni. Það þarf að æfa mjög vel áður en maður les upp fyrir hóp, nemendur lögðu metnað sinn í það og verkefnin verða einhvern vegin meira ,,alvöru” þegar maður veit að hópur foreldra mun koma og skoða þau, hlusta á mann og jafnvel spyrja spurninga eða taka þátt með öðrum leiðum. Okkur finnst mjög gaman að fá foreldra í svona heimsóknir. Við þökkum ykkur öllum kærlega fyrir komuna og vonum að þið hafið haft gaman af. Það er mikilvægt fyrir börnin að foreldrar þeirra taki með þessum hætti þátt í vinnu þeirra í skólanum. Flestar myndirnar sem fylgja þessari frétt eru frá heimsóknunum.

Við höfum verið með gestakennara í 4.bekk að undanförnu. Það er hún Bergþóra Einarsdóttir sem verður hjá okkur fram yfir páskafrí að vinna verkefni sem heitir Lifandi málfræði. Verið er að vinna með alla þætti tungumálsins í gegnum margvíslega hreyfileiki, spuna, samvinnu og virkjun ímyndunaraflsins. Krökkunum finnst mjög gaman í þessum tímum eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Nú og svo hafa verið kennaranemar með nokkrum kennurum síðustu vikur.

Þá viljum við aðeins nefna nestismál í skólanum. Það er einnig mjög mikilvægur þáttur í foreldrahlutverkinu að sjá til þess að börn fái góða næringu sem dugar þeim til þeirra starfa sem þau þurfa að inna af hendi. Sem betur fer borða flestir nemendur morgunmat heima og koma vel nærðir í skólann. Við bjóðum svo upp á ávaxtaáskrift og þeir sem eru í henni fá ávexti á miðjum morgni og hafa því orku til að sinna verkefnunum sínum allan daginn. Fyrir þá sem ekki eru í ávaxtaáskrift er mjög mikilvægt að foreldrar hugsi vel um hvað þeir senda börn sín með í nesti. Á vef landlæknis eru mjög góðar leiðbeiningar um viðeigandi nesti fyrir skólabörn.

https://assets.ctfassets.net/8k0h54kbe6bj/TDp7YSfwNkH8pefDVSeEe/d6f4b8d3a1c1b5a181b1727429632193/Ra_leggingar_um_morgunnesti_grunnskolanema_2022.pdf

Svo vil ég að lokum nefna að vinna við endurhönnun skólalóðarinnar við Varmárskóla hefur verið í gangi í allan vetur. Landslagsarkitekt og ljósahönnuður eru að vinna með Mosfellsbæ að því að skoða möguleika á útfærslum. Lóðin er eins og hún er og það þarf að taka tillit til halla í landslaginu, skoða hvað þarf að gera við drenlagnir og fleira sem ekki blasir við okkur leikmönnunum. Svo þarf að áfangaskipta verkinu til samræmis við fjárhag. Við erum þó bjartsýn á að við munum sjá eitthvað áþreifanlegt og skemmtilegt gerast í sumar.

Til baka

Myndir með frétt

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira