logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla

28.10.2022 10:36

Af okkur er það helst að frétta þessa vikuna að vinaliðar eru komnir til starfa í frímínútum. Vinaliðaverkefnið er ættað frá Noregi en Árskóli á Sauðárkróki er með umboð fyrir það á Íslandi. Verkefnið snýst um að ákveðnir nemendur standa fyrir leikjum í frímínútum í tiltekin tímabil. Fyrsta leikjanámskeiðið fyrir krakkana okkar í tengslum við þetta verður vonandi í næstu viku.

Svo langar mig aðeins að ræða um afmælisboð. Þó að skólinn stýri að sjálfsögðu ekki hvernig fólk velur að halda upp afmæli þurfum við af og til að aðstoða við mál sem tengjast því að einhver er leiður vegna slíkra boða. Þetta er vand meðfarið og við biðjum ykkur foreldra að hugsa vel um hvernig þið gerið þetta og gæta þess eins og kostur er að enginn sitji eftir með sárt ennið. Ég veit að sú hugmynd hefur verið rædd í nokkrum árgöngum er að halda sameiginlegar veislur/skemmtanir í boði barna sem eiga afmæli á tilteknum tíma. Þessi leið er notuð í sumum skólasamfélögum og hefur yfirleitt reynst skemmtileg.

Við biðjum ykkur einlæglega að virða það að senda börn ekki með afmælisboð í skólann nema ef heilum bekk er boðið. Því þó að okkur fullorðna fólkinu finnist afmælisboð kannski léttvæg er það alls ekki svo í hugum barna. Afmæliboðskort í skólanum skapa alltaf umræðu meðal barna og ef ekki er öllum boðið upplifa þeir sem eftir sitja oftast sárindi.

Að lokum vil ég minna á námskeiðið sem foreldrafélagið stendur fyrir fimmtudaginn 3.nóvember. Þar fjallar Bryndís Jónsdóttir, sérfræðingur hjá Heimili og skóla um leiðir að vel heppnuðu foreldrasamstarfi. Þið foreldrar eruð lykilpersónur í velgengni barna ykkar á öllum sviðum og ekki síst í sambandi við skólagönguna og það er því mikilvægt að byggja upp eins gott samstarf og mögulegt er. Námskeiðið verður frá 19:30 – 21:00 hér í skólanum og ég hvet foreldra til að taka þetta kvöld frá.

Myndirnar sem fylgja þessari frétt eru frá morgunrölti skólastjórans þennan föstudagsmorgun. Þar má sjá nemendur 3.bekkjar forrita kúlur til að fylgja þrautabrautum sem þeir bjuggu til sjálfir. Annar hópur var að vinna að skapandi skrifum og hafði skellt sér í ferðalag með hval að eigin vali. Nemendur 2.bekkjar voru læra bæði málfræði og stærðfræði, verst að geta ekki leyft ykkur að heyra hversu dásamlegur vinnufriður var í þeim kennslustundum og nemendur ákafir í að vinna verkin sín. Í textíl var einbeitingin á fullu ýmist við að sauma í höndum, við krosssaum og að sauma í saumavél og í myndmennt var verið að búa til bangsamyndir eftir ákveðnu fyrirkomulagi. Öll þessi verkefnið miða að því efla einbeitingu, sköpunarkraft og seiglu.

Við minnum á að á mánudag er hrekkjavaka og búningar eru velkomnir (vopn og tæki eru þó ekki leyfð).

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í Varmárskóla

Til baka

Myndir með frétt

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira