logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla

21.10.2022 13:47

Síðastliðinn laugardag héldum við samræðuþing foreldra og starfsmanna til að ræða hvaða gildi og áherslur væru mikilvægastar í skólastarfi næstu ára. Þingið tókst mjög vel og samræður voru málefnalegar og skemmtilegar. Við ræddum líka um hlutverk foreldra í sambandi við skólagöngu barna sinna og hvað aðilar skólasamfélagsins gætu sameinast um að gera til að stuðla að samkennd, vináttu og virðingu í skólasamfélaginu. Niðurstöður verða notaðar til að skrifa stefnu skólans og svo getum við vonandi sent foreldrum samantekt frá vinnu þingsins.

Talandi um samkennd, vináttu og virðingu. Við leggjum mikla áherslu á að vinna með uppbyggileg samskipti með nemendum. Við búum til bekkjarsáttmála, höldum bekkjarfundi og tökum allskonar mál fyrir eftir því sem tækifæri bjóðast. Í þessari viku hefur 6.bekkur verið að vinna með netsamskipti og orðanotkun barna hvert við annað. Nemendur gerðu veggspjöld með heilræðum og ræddu mikilvægi þess að sýna virðingu í netsamskiptum.

Dæmi um heilræði frá nemendum eru:

Allt sem þú gerir á netinu endurspeglar hver þú ert.

Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi frá við þig.

Ekki taka þátt í neinu sem þú veist ekki hvað er.

Mundu að allt sem þú setur á netið er opið öllum, alltaf.

Þú berð ábyrgð á því sem þú segir og gerir á netinu.

Þetta er umræða sem alltaf verður að halda vakandi og mikilvægt að þið, foreldrar, gerið það líka og fylgist sérstaklega vel með hvað er í gangi í netheimum. Þar fara ljótustu samskiptin fram núna. Börn þurfa leiðbeiningar með þetta allt saman og það er ástæða fyrir því að aldurstakmörk eru sett bæði á samfélagsmiðlum og í mörgum tölvuleikjum. Þau eru til að börnin okkar að fái að þroskast í umhverfi sem þau ráða við, hjálpa okkur við að setja eðlileg mörk og búa börnunum hæfilega verndandi umhverfi.

Næsti skóladagur nemenda er fimmtudagurinn 27.október.

Hafið það gott í vetrarfríinu

Starfsfólk Varmárskóla

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira