logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla

01.04.2022 17:20

Að þessu sinni væri hægt að skrifa margar fréttagreinar um efni vikunnar svo erfitt var að velja umfjöllunarefni.

Fyrir nokkrum vikum svöruðu foreldrar viðhorfskönnun frá Skólapúlsinum. Niðurstöður þeirrar könnunar verða notaðar í árlegri umbótaáætlun skólans. Það er of langt mál að telja upp allt sem þar kemur fram en það sem okkur þykir leiðinlegast er margir foreldrar telja að talsvert sé um einelti í skólanum. Á þessu skólaári hafa sex tilkynningar borist um grun um einelti. Þrjú þeirra mála eru leyst, eitt flokkast ekki sem einelti og tvö eru enn í vinnslu. Miðað við svörin í könnuninni má ætla að fleiri mál séu í gangi sem við höfum ekki verið upplýst um. Þá eru færri foreldrar en almennt gerist ánægðir með aðstöðu nemenda í skólanum, tómstundaþjónustu og mat í mötuneyti. Það sem okkur þykir vænst um er að fleiri foreldrar en almennt gengur og gerist telja að börnum þeirra líði vel bæði skólanum og í kennslustundum. Þetta er okkur mjög dýrmætt því þetta er líka spurning sem foreldrar svara á grundvelli eigin reynslu. Þá var líka almenn ánægja með síðasta foreldrasamtal og samskipti við umsjónarkennara.

Þriðji bekkur hefur undanfarið verið að vinna verkefni um geiminn, reikistjörnur og geimferðir. Þau fóru út í geim og þurftu því að komast að hvað þarf til að komast af á nýrri plánetu, hvernig geimskutlur eru innréttaðar, hvaða störf væri hægt að vinna og margt fleira. Þau komu svo til baka frá Mars á miðvikudaginn og héldu hátíð þar sem foreldrum var sýndur afrakstur þessa skemmtilega verkefnis.

Nú vikunni lauk svo á frábærum samræðufundi foreldra og nemenda í 3.bekk um bekkjaranda og hvað hver og einn þyrfti að leggja af mörkum til að hann gæti verið góður. Fundurinn fór fram með þjóðfundarsniði og það var aldeilis frábært að sjá hvernig börnin fóru smátt og smátt að tjá sig meira. Tillögur þeirra og hugmyndir um bekkjaranda eru eins og frá fagmönnum á sviðinu enda vita börn hvernig aðstæður þurfa að vera til að þeim líði vel. Fundinum lauk svo með skemmtiatriði frá nemendum þar sem strákasöngsveit flutti frumsamið lag fyrir foreldrana.

Nú þegar snjórinn hefur bráðnað eru margir sem koma á hjólum og hlaupahjólum í skólann. Við viljum minna foreldra á að passa að börn séu með viðeigandi öryggisbúnað og að við höfum ekki pláss til að geyma hlaupahjól inni.

Að lokum er svo rétt að geta þess að við erum hreinlega að drukkna í óskilamunum, við verðum bara að fara að losa okkur við þá svo við hvetjum ykkur til að koma og skoða hvort þið eigið ekki eitthvað hér.

Hafið það gott um helgina

Starfsfólkið í Varmárskóla

Til baka

Myndir með frétt

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira