logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla

11.03.2022 16:28

Kæru foreldrar

Þakka ykkur fyrir að taka þátt í að svara foreldrakönnun Skólapúlsins. Það er okkur mikilvægt að fá upplýsingar um upplifun ykkar af skólastarfinu og hvernig þið metið líðan barna ykkar. 7 af 39 spurningum töldust með marktækan mun í okkar niðurstöðum. Tvær á jákvæðan hátt og fimm á neikvæðan. Foreldrar barna í Varmárskóla segjast nota meiri tíma en gengur og gerist við að aðstoða nemendur við heimanám og vera virkari í námi barna sinna en foreldrar almennt. Ánægja með heimasíðu og almenna aðstöðu var minni en á landsvísu og þá komu fram ábendingar um að fleiri foreldrar teldu að barn þeirra hefði orðið fyrir einelti en annars staðar en á móti því kemur að tímabil sem einelti hefur staðið er metið styttra en almennt gerist.  En niðurstöður segja jafnframt að fleiri foreldrar í Varmárskóla en á landsvísu telja að börnum þeirra líði vel í skólanum. Frekari úrvinnsla úr niðurstöðum ásamt umbótaáætlun mun birtast í matsskýrslu skólans í vor.

Það hafa verið talsverð forföll hjá okkur vegna covid þessa viku og stundum getum við hreinlega ekki mannað allar kennslustundir. Við höfum sett okkur þá vinnureglu að manna fyrst kennslu í yngstu bekkjunum og þeir nemendur eru ekki sendir heim áður en kennslu á að vera lokið. Þegar um er að ræða nemendur í 5. og 6. bekk grípum við stundum til þess ráðs að senda nemendur heim á hádegi ef mikil forföll eru á starfsmönnum. 

Við vitum að mörg börn hafa líka verið veik að undanförnu en sem betur fer leggjast covid veikindi yfirleitt létt á þá sem hafa fengið bóluefni. Nokkuð hefur borið á því að fólk biðji um að börn fái að vera inni meðan þau eru að jafna sig eftir veikindi og það er okkur mjög erfitt að verða við því, þar sem við höfum ekki mannskap til að sinna gæslu inni meðan á frímínútum stendur. Við biðjum ykkur því að senda börn ekki í skólann fyrr en þau eru orðin það hress að þau geti verið úti og tekið almennan þátt í starfinu í skólanum.

Samþykkt hefur verið að skólinn taki þátt í könnuninni ,,Heilsa og lífskjör skólanema" sem Menntamálastofnun gerir fyrir Mennta- og menningarmálaráðuneytið og félagsmálaráðuneytið.  Í okkar skóla eru það 4. og 6.bekkur sem taka þátt í könnuninni. Þátttaka nemenda er valkvæð og foreldrar/forsjáraðilar þeirra geta hafnað þátttöku, póstur um könnunina hefur verið sendur á þá árganga sem taka þátt.

Af gefnu tilefni viljum við benda á að almennt geta kennarar og stuðningsfulltrúar ekki lesið eða svarað tölvupósti á kennslutíma. Ef þið þurfið nauðsynlega að ná í starfsmenn eða koma boðum til þeirra meðan á kennslu stendur biðjum við ykkur um að hafa samband við skrifstofu skólans í síma 525-0710 og biðja fyrir skilaboð eða fá aðstoð við að leysa úr málum. Þá hefur nokkuð borið á því að foreldrar hringi beint í gsm númer kennara eða stuðningsfulltrúa. Við erum að reyna að hafa samskiptin þannig að þau uppfylli kröfur um formlegheit og hægt sé að skrá í skjalavistun ef nauðsyn ber til og því biðjum við ykkur að nota annað hvort tölvupóst eða hafa samband við skrifstofu skólans þegar þið viljið hafa samband við starfsfólk.

Bestu kveðjur og hafið það gott um helgina

Starfsfólk Varmárskóla

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira