logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja
04.02.2022 13:42

Foreldraviðtölum er nú lokið og við þökkum ykkur fyrir góða þátttöku í þeim. Þessi viðtöl eru mikilvægur vettvangur fyrir nemendur, foreldra og kennara til að ræða saman og finna leiðir til að námið í skólanum gagnist nemendum sem best.

Það gengur bærilega hjá okkur að manna forföll starfsmanna, sem eru talsvert meiri en í meðalári vegna covid, og við höfum aðeins einu sinni þurft að fella niður kennslustund hjá nemendum í lok dags.

Nemendurnir okkar eru alltaf duglegir að æfa sig við allskonar fjölbreytt verkefni sem stundum leyna á sér. Flest verkefnin sem unnið er með í skólanum snúast á einn eða annan hátt um sjálfstæði og samvinnu. Það að geta bæði tekið frumkvæði og verið fær um að vinna með öðrum eru hæfileikar sem koma manni allsstaðar að gagni. Þá þarf líka að þjálfa þrautseigju og þolinmæði því mörg verkefnanna sem mæta manni á lífsleiðinni krefjast þess að maður gefist ekki upp þó á móti blási og hafi úthald til að klára það sem fyrir mann er lagt. Þetta eru þættir sem ekki fá mikið pláss í námskrá svona yfirleitt en eru nauðsynlegir til að ljúka flestum verkefnum. Á myndunum sem fylgja með þessari frétt má einmitt sjá nemendur einbeita sér, nota hugmyndaflugið, skapa og sýna samvinnu.

Seinni hluta næstu viku munum við leggja áherslu á að vinna með margbreytileika mannlífsins. Upphaflega ætluðum við að vera með þemadaga þar sem nemendur myndu vinna þvert á árganga en þrátt fyrir að heimilt sé að blanda hópum í skólastarfi teljum við betra að blanda hópum ekki saman enn sem komið er og því munu verkefnin að þessu sinni verða unnin í árgangahópum.

Hafið það gott um helgina

Starfsfólk Varmárskóla

Til baka

Myndir með frétt

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira