logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla

29.10.2021 14:33

Nemendadagarnir tveir í þessari viku hafa heldur betur verið viðburðarríkir. Í gær fékk 4.bekkur heimsókn frá verkefninu ,,Skáld í skólum”. Þar kynntu þau Hilmar Óskarsson og Blær Guðmundsdóttir töfrana og sköpunina sem sagnagerð getur falið í sér. Þau bentu nemendum meðal annars á að það má láta tilfinningar sínar í ljós með afgerandi hætti án þess að vera dónalegur eða nota ljót orð og vísuðu þar í Kolbein Kaftein, vin Tinna, sem tvinnar saman ótrúlegustu orð í tjáningu sinni.

Í dag var svo hrekkjavökustemming í skólanum og nemendur og starfsmenn mættu í allskonar búningum og fengust við fjölbreytt ,,hrekkjavökuverkefni”. Í öðrum bekk höfðu kennararnir til dæmis skipulagt fimm hólfa hringekju þar sem öll verkefnin tengdust hrekkjavöku, stærðfræði, íslenska, dans, föndur og leikir. Nú svo var skólablakmót þar sem nemendur okkar úr 5. og 6. bekk tóku þátt og skemmtu sér konunglega eins og sjá má af mynd.

En það voru ekki allar fréttir jafn skemmtilegar hjá okkur, bæði starfsmenn og nemendur hafa verið að greinast með Covid-19 síðustu daga. Þegar það gerist hefur rakningateymi almannavarna samband við skólann, þau meta hvaða fólk á að senda í sóttkví og hverjir þurfa að fara í smitgát. Ef við skráum börn í sóttkví fá foreldrar sms frá rakningateyminu með strikamerki fyrir PCR próf. Ef aðeins er mælt með að fólk ástundi smitgát sendum við leiðbeiningar um hvernig skal skrá sig svo skráning verði virk,  fólk sér sjálft um skráningu. Þegar skráningu í smitgát er lokið fær fólk sent strikamerki fyrir hraðpróf. 

Það hefur að sjálfsögðu áhrif á starfsemi skólans þegar starfsmenn þurfa að vera frá um lengri tíma vegna veikinda en við gerum okkar besta til að leysa forföll og mönnum alltaf kennslu hjá yngri nemendum en þegar álagið er mikið getur verið að við þurfum að senda eldri nemendur heim á hádegi, en þá sendum við alltaf póst á foreldra.

Við viljum ítreka að samkvæmt tilmælum landlæknis er beðið um að börn sem eru lasin eða með smávægileg einkenni komi ekki í skólann. Þetta er gert til að minnka líkur á smitum í skólaumhverfinu.

Ef frekari upplýsinga er óskað bendum við á eftirfarandi hlekki

https://www.covid.is/

https://www.covid.is/undirflokkar/smitgat

Hafið það gott um helgina

Starfsfólk Varmárskóla

 

Til baka

Myndir með frétt

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira