logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Teymiskennsla í 2.bekk í Varmárskóla

16.03.2018

Við tókum á móti flottum barnahópi haustið 2016 sem skiptist í 3 bekki.  Börnunum var skipt eftir hverfum en okkur langaði til þess að prófa að blanda bekkjunum meira en tíðkast hefur í Varmárskóla til þessa.  Við ákváðum að leggja megin áherslu á íslensku og stærðfræði fyrir áramót og gerðum því kannanir á bókstafa og tölustafakunnáttu barnanna.  Eftir það færniskiptum við hópunum þannig að allir fengju verkefni við hæfi.  Við byrjuðum í K-PALS og sáum við strax kosti þessarar hópaskiptingar.  Allir hóparnir tóku miklum framförum á þessu tímabili.  Ásamt PALS-inu fengu nemendurnir kennslu í byrjendalæsi í sinni heimastofu.  Í stærðfræðinni færniskiptum við líka og voru bekkirnir með miðlungs sterka færni og sterka færni fjölmennari en bekkurinn með slaka færni.  Þannig gafst tækifæri til að einbeita sér sérstaklega að slaka hópnum til að koma þeim vel áleiðis í miðlungs hópinn.  Yfir veturinn færðust nemendur svo milli hópa eftir því sem færnin jókst.  Yfir veturinn héldum við svo þessum hópum áfram.  Á föstudögum var ávallt söngstund þar sem allur árgangurinn kom saman og lærðu dægurlög. 

Haustið 2017 bættust nemendur við hópinn og ákváðum við að gera könnun á færni þeirra og skipta árganginum svo upp eftir færni.  Áfram vorum við með stærðfræðihópana en hvíldum íslensku hópana.  Þegar líða tók á haustið var nokkuð ljóst að allnokkrir nemendur þurfa töluverða aðstoð til að halda í við jafnaldra sína og einnig var barnafjöldi í hverjum bekk á milli 22-24 börn.  Ráðinn hefur verið aðstoðarkennari sem sinnir einum bekknum 8 tíma á viku, á meðan einn umsjónarkennarinn tekur ca 4 úr hverjum bekk sem fær þá séraðstoð í litlum hópi.  Þetta er að reynast vel og verður spennandi að sjá árangur þessara vinnu í vor. 


Það sem hefur reynst okkur afar vel er náið samstarf og verkaskipting.  Einnig sjáum við ótvíræða kosti þess hversu vel bekkirnir blandast og þykir nemendum ekkert mál að fara á milli heimastofa.   Nemendurnir tengjast betur og auðveldara að eignast félaga utan bekkjarins.  Við erum mjög stoltar af söngstundinni okkar á föstudögum og erum að vinna í að kveikja áhuga annarra bekkjarkennara. Annegret er þýskur tónmenntakennari og hefur slegist í hópinn með okkur og sér um undirspil í þessum stundum.

Bestu kveðjur Ásgerður Inga, Elfa Dís og Kristín Svanhildur umsjónarkennarar í 2.bekk
Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira