logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla 27.sept. 2024

27.09.2024 14:30

Vikurnar fljúga hjá og hér er alltaf nóg að gera. Haustfundir með foreldrum hafa verið í gangi síðustu tvær vikur. Á þeim fara kennarar yfir helstu áherslur ársins bæði í námi og öðrum verkefnum. Á þessum fundum höfum við einnig rætt um þá ofbeldisöldu sem virðist vera í gangi í samfélaginu okkar, með sérstaka áherslu á hvernig hægt er að bregðast við með börnum og unglingum. Eitt af því sem hvert og eitt foreldri getur gert er að standa vörð um aldurstakmörk sem sett eru til að vernda börn. Þetta á við til dæmis um samfélagsmiðla, tölvuleiki, rafhlaupahjól, útivistartíma og eflaust eitthvað fleira. Eins hvetjum við alla foreldra til að fylgjast vel með börnum sínum og skoða sérstaklega hvenær börnin þeirra eru að leika sér með efni sem inniheldur einhvers konar ofbeldi. Það er ekki hollt fyrir neinn að vera sífellt í ofbeldisleikjum og allra síst fyrir óþroskaðan barnshuga sem greinir ekki almennilega á milli raunveruleika og ímyndunar. Við erum sannfærð um að þetta myndi leiða okkur á betri stað, það er nefnilega engin ástæða fyrir okkur til að samþykkja allt þetta ofbeldi sem börnunum okkar býðst.

Annars er alltaf stuð í Varmárskóla. Litlu smásjárnar opna nýja sýn fyrir nemendum, einn hafði á orði ,,að ekki væri allt sem sýndist” þegar hann fékk að skoða stéttina hjá okkur í smásjá. Þetta er endalaus uppspretta gleði hjá nemendum. 

Svo fékk 2.bekkur alveg dásamlega heimsókn, hún Cristina Elena, blind stúlka sem flutti til Íslands frá Rúmenínu fyrir nokkrum árum, kom og útskýrði fyrir nemendum hvernig það væri að vera blindur og verða að treysta á hvíta stafinn til að komast um. Hún las líka fyrir krakkana af bók með punktaletri og þeir fengu líka að spreyta sig við lesturinn. Hér er smá sýnishorn. https://youtu.be/dqy8dNEMxs8. Nemendur voru svo áhugasamir um veröld Cristinu, að það hefði mátt heyra saumnál detta á meðan hún var að tala við þá. Þeir voru líka mikið að velta fyrir sér hvernig maður gæti verið glaður þegar maður sæi ekki neitt og Cristina útskýrði svo vel að þetta væri hennar líf sem hún kynni á og hún væri bara glöð eins og aðrir krakkar.

Í gær tókum við svo okkar skerf í Íþróttaviku Evrópu með Hlégarðshlaupinu sem nú var þá haldið í annað sinn. Það var ,,rífandi stemming og dúndur gleði” og krakkarnir okkar hlupu vegalengd sem nemur öllum hringveginum og gott betur. https://youtu.be/-8ZccmpxyeY

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í Varmárskóla


Til baka

Myndir með frétt

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira