logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla

11.11.2022

Í þessari viku finnst okkur skemmtilegast að segja frá nemendaþinginu sem við héldum í samstarfi við FMOS. Þar komu saman um 170 krakkar frá okkur og 30 unglingar frá FMOS og ræddu saman um einelti, ástæður þess og aðgerðir sem gætu orðið til að draga úr einelti. Þetta var frábær dagur sem sýndi okkur svo ekki verður um villst hvað krakkar hafa miklar skoðanir á samfélagi sínu og geta lagt margt til málanna ef þeir fá tækifæri til. Við munum nota niðurstöðurnar bæði í beinni vinnu með nemendum og svo til að aðstoða þá við að leysa úr allskonar samskiptavandamálum sem upp koma á ,,stóru heimili” eins og skólanum okkar.

Annað sem var svo gaman að sjá var hvað sjálfstæði nemenda efldist við að finna að tillögur þeirra og svör væru tekin alvarlega. Það er ágæt áminning til okkar um hversu mikilvægt er að efla sjálfstæði barna hvenær sem tækifæri gefst til þess. Við eflum sjálfstæði með því að leyfa börnum að gera sjálf það sem þau geta og leyfa þeim að æfa sig í að leysa vandmál. Það er góð tilfinning að vita að maður er fær um að bjarga sér og finna eigin lausnir. Það er gott fyrir okkur að muna að börnin eru sem betur fer að þroskast og eflast og það sem maður gerði fyrir þau þegar þau voru lítil geta þau kannski vel gert sjálf í dag og það verður til að efla þroska þeirra og sjálfstæði.

Á þinginu kom fram að einelti í dag fer mjög mikið fram á netinu. Þar eru engir opnunartímar og oftast enginn sem verður vitni að því sem börn eru að gera meðan þau eru að því. Þar eru mestu hætturnar í dag. Í samstarfi við foreldrafélagið ætlum við því að bjóða upp á fræðslufund um stafrænt uppeldi fyrir foreldra mánudaginn 21.nóvember. Ég hvet alla foreldra til að taka þetta kvöld frá og styðja krakkana sína með því að mæta og taka þátt.

Nú svo langar okkur að segja frá því að margir kennarar skólans eru að byrja að vinna með markvissum hætti með leiðsagnarnám. Leiðsagnarnám er ákveðið skipulag á kennslu sem felur í sér að útskýra vel fyrir nemendum markmið kennslunnar hverju sinni og hafa allar þær bjargir tiltækar sem okkur dettur í huga að nemendur geti nýtt sér. Með þessari frétt fylgja myndi af því hvernig 4.bekkur er að setja upp námsveggi í íslensku og stærðfræði og nota aðferðir leiðsagnarnáms til að kenna sögugerð.

Niðurstöður eftir vinnu foreldraþingsins um hlutverk foreldra í tengslum við skólagöngu barna sinna eru nú tilbúnar og öll heimili fá segul til að setja á ísskápinn til að minna sig á. Segullinn fór heim með yngsta barni í hverri fjölskyldu í dag.

Að lokum er svo rétt að geta þess að ,,List fyrir alla” bauð nemendum 1. og 2. bekkjar upp á leiksýninguna Mjallhvíti, sem Leikhópurinn Lotta setur upp, í dag. Þetta var mjög spennandi og flestir nemendur hæstánægðir með að vera boðið í leikhús.

Hafið það gott um helgina

Starfsfólkið í Varmárskóla

Til baka

Myndir með frétt

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira