logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla

17.12.2021

Margskonar jólabrall hefur verið á döfinni hjá okkur þessa síðustu viku fyrir jól og einhverjir foreldrar eiga von á glaðningi frá börnum sínum í jólapakkanum.  Við höfum samt verið með hefðbundna kennslu að einhverju leyti alla daga og flest hefur gengið samkvæmt dagskrá. Í gær þurfti þó að gera undantekningu á útikennslu og var það aðeins í annað skiptið á haustönninni sem veður var þannig að ekki væri hægt að vinna útiverkefnin sem voru á dagskrá. Sumir segja að við höfum verið svo heppin með veður en ég kýs að segja að þetta sé merki um þrautseigju og útsjónarsemi því nánast sama hvernig viðrar fara nemendur 5. og 6. bekkjar í útiverkefni með útikennurunum. Myndin sem fylgir með að þessu sinni er frá útieldun þar sem nemendur bökuðu kanilsnúða og hituðu kakó.

Á mánudaginn eru svo litlu jólin í skólanum. Skólinn verður opnaður á venjulegum tíma en gæsla hefst 8:30. Ekki verður gengið í kringum jólatré að þessu sinni en umsjónarkennarar hvers árgangs skipuleggja daginn með sínum nemendum. Upplýsingar um skólabílinn eru þegar komnar á heimasíðu skólans http://www.varmarskoli.is/forsida/frettir/frett/2021/12/14/Skolabillinn-20.-desember/

Eftir að dagskrá í skólanum lýkur geta nemendur verið í umsjón stuðningsfulltrúa þar til frístund hefst klukkan 13:20.  Það verður svo opið í frístundinni frá 8-16 dagana 21. og 22. des og allir sem skráðu börn sín hafa fengið tölvupóst um það.

Kveðja

Starfsfólk Varmárskóla

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira