logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Brúarlandsbragur

04.04.2019 10:40
Í Brúarlandi, fallegu húsi við Varmá, hafa margir Mosfellingar gengið menntaveginn. Þar er nú nokkurskonar sel frá Varmárskóla þar sem 4. bekkur hefur aðsetur. Umsjónarkennarar barnanna vinna sem eitt teymi og þrátt fyrir að formlega séu þrjár bekkjardeildir er mikil samkennsla og uppbrot í mismunandi námshópa þvert á bekki. Það gerir starfsfólki kleift að sinna betur hverjum einstaklingi á hans forsendum. Hægt er að bjóða upp á og nota fjölbreyttari kennsluhætti og sveigjanlega stundaskrá við þessar aðstæður. Svona áherslur kalla á samhent kennarateymi og frábært starfsfólk og það vill svo skemmtilega til að sú er raunin.

Fyrir Vorhátíð Varmárskóla, fengu krakkarnir tilsögn í að kveða stemmur og á hátíðinni kváðu þau þennan nýja ,,Brúarlandsbrag“ eftir Gunnar J. Straumland, eftir kúnstarinnar reglum, við húnvetnska stemmu. Voru þau mjög áhugasöm, æfðu vel og stóðu sig frábærlega á Vorhátíðinni.

Brúarlandsbragur:
Gamla húsið gleðisöngva gjarnan syngur,
lék sér þar og lærði slyngur
á lífið, sérhver Mosfellingur.

Galdurinn við gæðaskóla er góður andi.
Að vefja um sig vinabandi
venjumst hér í Brúarlandi.

Með tillitssemi og trausti okkur tekst að vinna,
saman allir sáttir finna
sól á meðal vina sinna.

Í morgun er ég mætti í skólann meira kunni,
með fjórða bekkjar fjölskyldunni
ég fagna lífsins trausta grunni.

Eins við skemmtum okkur vel á útisvæði,
sumum finnst það algjört æði
að una sér í góðu næði.

Í skógarrjóðri skríkja nokkrir skrítnir gestir,
skemmtilegir skógarþrestir
skoppa um og syngja flestir.

Frábært er að finna sig í fögrum lundi,
þar sem furðufuglinn undi
með fíflalæti á gleðifundi.

Einbeiting í auðnuhúsi er enginn vandi,
gleðin er í góðu standi,
gaman er í Brúarlandi.

Gamla húsið gleðisöngva gjarnan syngur,
lék sér þar og lærði slyngur
á lífið, sérhver Mosfellingur.
Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira