logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Leiklist í list- og verkgreinum hjá 5. og 6. bekk

12.02.2018 13:55
Í vetur hafa fimmtu og sjöttu bekkir verið með leiklist á stundartöflu í list- og verkgreinum. Þar fá nemendur tækifæri til að kynnast leiklist en  krakkarnir fá sex tíma á viku í fjórar til fimm vikur á ári. Í leiklist er lögð áhersla á samvinnu, samkennd, notkun ímyndurafls auk þess sem nemendur fá um 20 mínútna slökun einu sinni í viku þar sem skilningarvitin fimm eru könnuð. Í tímunum fá nemendur jafnframt leiðsögn í öndun sem er frábært verkfæri til meðhöndlunar á kvíða.  Það er gaman að segja frá því að í hverjum hópi er hægt að sjá hvernig nemendur opna sig smátt og smátt sem vekur upp samkennd og skilning annarra nemenda og eiga nemendur skilið mikið hrós fyrir hugrekki og stuðning við aðra.

Í leiklistinni er lagt mikið uppúr samvinnu og er sérstök áhersla lögð á að kynnast vel öllum þeim sem eru í hópnum og því mikilvægt að allir hafi unnið saman á einhverjum tímapunkti kennslunnar.

Í leiklist er mikilvægt að þekkja sjálfan sig, og í vetur hefur verið unnið í að skoða tilfinningalæsi og túlkun. Nemendur vinna einnig saman í því að skrifa leikrit, en þar fá nemendur tækifæri til að nota ímyndunaraflið til hins ýtrasta og fram hafa komið persónur allt frá grilluðum ananas til Lionel Messi fótboltastjörnu.

Rúsínan í pylsuendanum er svo þegar nemendur fá að skapa sinn eigin trúð, þá með göngulagi, rödd, kækjum og svo að lokum með trúðanefi sem nemendur fá til eigu.

Meðfylgjandi er slökunaræfing sem hentar jafnt börnum sem og fullorðnum. 
Kjörin æfing til að prófa saman og einnig kjörin æfing fyrir foreldra til að nýta í pásu í vinnunni eða jafnvel bara úti í bíl eftir langan vinnudag.

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira