logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Ástundun

Við í Varmárskóla leggjum upp með gildi Mosfellsbæjar, virðingu, jákvæðni, framsækni og umhyggju. Við leggjum áherslu á jákvætt og öflugt samstarf við foreldra og teljum að eitt brýnasta verkefni foreldra sé að styðja við börnin sín í skólastarfinu og að mikilvægt sé að foreldrar átti sig á því veigamikla hlutverki sem þeir gegna á skólagöngu barna sinna. Jákvæð umræða heima fyrir og virðing fyrir því starfi sem fram fer í skólanum er ein helsta forsenda farsællar skólagöngu hvers einasta barns. Umhyggju sýnum við meðal annars með því að grípa inn í ef okkur sýnist eitthvað vera að fara úrskeiðis hjá barninu og styðja við það eins vel og okkur framast er unnt. Það er einmitt sameiginlegt hlutverk heimilis og skóla.

Nám er vinna og skólinn er vinnustaður nemenda sem eru að fóta sig í tilverunni, leita sér að lífsstefnu og læra að tileinka sér vönduð vinnubrögð. Skólinn er jafn mikilvægur veruleiki fyrir þá sem hann sækja og starfsheimurinn fullorðnum. Á sama hátt og fjarvistir úr vinnu koma fullorðnum illa þá eru fjarvistir nemenda af hvaða toga sem þær eru nemendum ekki til heilla. Því ber öllum að virða skólann sem vinnustað. Í skólanum er því lögð mikil áhersla á stundvísi. Óstundvísi er ósiður sem veldur truflun á skólastarfi og hefur auk þess neikvæð áhrif á námsárangur nemenda.

Töluvert hefur borið á því í gegnum árin að sótt er um leyfi fyrir nemendur vegna þess að þeir hafi ekki gefið sér tíma til að læra undir próf sem þó eru sett fyrir með góðum fyrirvara. Einnig hefur verið þó nokkuð um að sótt er um leyfi ef eyða skapast í stundatöflu vegna forfalla kennara og er þá sótt um leyfi fyrir nemandann það sem eftir lifir dags. Við bendum á að nemendur hafa tök á að nýta sér bókasafnið eða aðstöðu í sal til heimanáms og þess vegna engin þörf á að þróa með sér frestun í námi.

Sjúkrapróf
Ákveðið hefur verið að breyta fyrirkomulagi sjúkraprófa. Þau verða ekki haldin á ákveðnum tíma eins og verið hefur. Ef nemendur þreyta sjúkrapróf þá verður það gert í kennslustund hjá kennara í viðkomandi grein. Reynt verður eftir fremsta megni að skapa nemendum viðunandi aðstæður við próftökuna.

Íþróttir
Þá hefur þó nokkuð borið á því á fyrstu dögum nýs skólaárs að nemendur eru án sund- og leikfimifatnaðar og mæta þar af leiðandi ekki í íþróttir. Við neyðumst til að hafa samband heim ef slíkt endurtekur sig ítrekað. Tekið er tillit til þess ef nemandi gleymir sundfatnaði í tvö skipti en eftir það er skráð fjarvist í íþróttum. Ef sótt er um undanþágu fyrir nemanda í námsgrein er þess farið á leit við foreldra/forráðamenn að þeir fylli út þar til gert eyðublað auk þess sem endurnýja þarf vottorð í íþróttum ef um endurtekna undanþágu frá þeirri námsgrein er að ræða.
Við vonum að þetta skili sér í skilvirkara utanumhaldi um nám og ástundun barnanna.
Foreldrar/forráðamenn eru beðnir um að tilkynna öll forföll nemenda daglega á skrifstofu skólans, svo fljótt sem auðið er.

Heimanám
Heimanám er nauðsynlegur þáttur í skólastarfinu m.a. til að ljúka verkefnum sem ekki tekst að ljúka í skólanum. Mikilvægt er að rifja upp og festa betur í minni það sem farið er yfir í skólanum, þjálfa betur vinnuaðferðir og undirbúa sig fyrir kennslustundir. Í flestum bóklegum greinum er gert ráð fyrir heimanámi aðallega í eldri deild. Skólinn leggur mikla áherslu á að nemendur temji sér skipulögð vinnubrögð við þá vinnu. Kennarar skólans birta heimavinnuáætlunina á www.mentor.is. Eldri nemendur (6. - 10. bekkur) bera ábyrgð á að skrá niður heimaverkefni sín. Nemendum í eldri deild er bent á að nýta sér skólabókasafnið til heimanámsvinnu.

Mentor
Mentor er skráningar- og samskiptaforrit nemenda, kennara og foreldra/forráðamanna. Allir
nemendur í eldri deild hafa sitt aðgangsorð að Mentor og geta þeir fylgst með heimavinnu sinni þar. Foreldrar hafa sinn aðgang að Mentor og mikilvægt er að halda þeim aðgangi aðskildum frá nemendaaðgangi. Áríðandi er að foreldrar skrái netfang sitt í Mentor til að samskipti milli heimils og skóla virki vel. Gott er að nemendur í eldri deild skrái netfang sitt í Mentor eigi þeir slíkt. Foreldrar geta sjálfir skráð veikindi barna sinna í Mentor en vakin skal athygli á því að tilkynna ber veikindi daglega og það sama á við ef veikindi eru skráð í Mentor.

Ástundunareinkunn eldri deildar:
Seint gefur 1 punkt.
Fjarvist gefur 2 punkta.
Vísað úr tíma gefur 4 punkta.
Stig: Einkunn:
2 10
3 9,5
5 9
8 8,5
11 8
14 7,5
17 7
20 6,5
23 6
26 5,5
31 5
36 4
46 3
56 2
66 1
77 0

Meðferð vegna óheimilla fjarvista
Ef nemandi skrópar í tímum þá ber umsjónarkennara að ræða við nemandann og hafa samband við foreldra/forráðamenn í síma eða með tölvupósti. Kennari skráir öll samskipti við forráðamenn í dagbók viðkomandi nemanda. Ef nemandi lætur ekki segjast og er kominn með 7,5 í mætingareinkunn þá verða foreldrar/forráðamenn ásamt nemanda, umsjónarkennara og deildarstjóra að halda fund um málið og finna úrræði fyrir nemandann. Umsjónarkennara ber að boða til fundar. Ef nemandi bætir ekki mætingar sínar þá er málinu vísað til deildarstjóra. Ef nemandinn breytir ekki hegðun sinni er málið tekið fyrir á fundi nemendaverndarráðs. Skrifstofa skólans sendir foreldrum/forráðamönnum vikulega yfirlit yfir mætingar nemenda á tölvutæku formi í eldri deild en mánaðarlega í yngri deild. Foreldrar/forráðamenn skulu leiðrétta rangfærslur strax í tölvupósti eða símleiðis til skrifstofu skólans. Ekki er tekið við breytingum að tveimur vikum liðnum frá útsendum tölvupósti.

Leyfi nemenda
Tilkynna þarf öll leyfi. Ef nemandi þarf leyfi í einn, tvo daga getur umsjónarkennari veitt leyfið. Sækja þarf skriflega um leyfi allt að þremur til fimm dögum á skrifstofu skólans eða á eyðublaði á heimsíðu skólans. Ef lengra leyfis er óskað þurfa foreldrar að sækja um slíkt skriflega á þar til gerðum eyðublöðum á skrifstofu skólans eða á heimasíðunni með góðum fyrirvara, leyfið fæst með samþykki skólastjóra. Það er á ábyrgð foreldra að nemandinn stundi námið þann tíma sem hann er fjarverandi úr skóla því getur skólinn ekki boðið sérkennslu eða stuðning í slíkum tilfellum.

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira